Freyr var ánægður með frammistöðu íslenska liðsins og segir það hafa grætt mikið á vináttuleikjunum tveimnur
„Það tókst allt sem við ætluðum að gera. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Við fáum færin og höldum þeim frá markinu okkar. Gugga fékk það verkefni að verja þessi þrjú skot sem fóru á markið. Eitt af þeim fór inn en það var ekki henni að kenna,“ sagði Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari og glotti en hann var ánægður með frammistöðu íslenska landsliðsins þrátt fyrir 0-1 tap gegn Brasilíu í síðasta vináttuleik Íslands fyrir Evrópumótið í sumar.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 1 Brasilía
Frammistaða íslenska liðsins var mjög góð en það vantaði að gera betur upp við mark andstæðinganna. Freyr segist ekki áhyggjufullur yfir markaleysinu.
„Ég er svekktur fyrir þeirra hönd. Þær lögðu svo mikið í þetta og það er svekkjandi að fá ekkert út úr því. Það er ekki eins og það hafi verið flókið að slútta á þær. Hún stóð bara og var í engri stöðu. Það þarf að setja hann niðri og þetta er mark. Við þurfum aðeins að kíkja á þetta. Slaka á og finna út úr þessu. Þetta verður í lagi.“
Freyr hefur verið ánægður með innkomu nýliðanna í landsliðinu og segir þær hafa gripið tækifærin sín af mikilli prýði.
„Svo voru ungir leikmenn sem við hentum í djúpu laugina og ég get ekkert sett út á þær. Þær gripu tækifærið sitt og gerðu stórkostlega vel. Þannig að við bjuggum til þrjá nýja A-landsliðsmenn á stuttum tíma“.
Aðspurður um lokaval á leikmannahópi fyrir Evrópumótið svaraði Freyr:
„Þessi hópur kemur til greina plús fjórir leikmenn. Ég mun leyfa mér að taka næstu 10 daga í þetta.“
Nánar er rætt við Frey í sjónvarpinu hér að ofan en þar kemur Freyr meðal annars inn á meiðsli Margrétar Láru fyrirliða og þann frábæra stuðning sem landsliðið fékk í kvöld þegar áhorfendamet var slegið á kvennalandsleik.
Athugasemdir
























