„Þetta var þægilegra en ég bjóst við en við unnum fyrir þessu. Við komum inn í leikinn af miklum krafti og mikil hreyfing og barátta í liðin. Við stigum í rauninni aldrei af bensíngjöfinni. Fyllilega verðskuldaður sigur hjá okkur en við hefðum hæglega getað bætt við þetta," sagði Sölvi Geir Ottesen sem stýrði liði Víkings til sigurs gegn HK í kvöld í fjarveru Arnars Gunnlaugssonar sem tók út leikbann.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 6 - 1 HK
Umtalið um Víkingsliðið síðustu daga er á þann veg að liðið sé óstöðvandi og það sé jafnvel orðið óþolandi.
„Fólk vill að þessi deild verði spennandi en við viljum það alls ekki. Við ætlum að halda áfram okkar sigurgöngu og hvernig við erum að spila. Víkingur er orðið algjört vígi og við ætlum að halda því áfram."
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafa tilboð borist í bæði Loga Tómasson og Ara Sigurpálsson frá liðum í Skandinavíu. Sölvi Geir hikaði mikið í svörum þegar hann var spurður út í þann orðróm og passaði sig að gefa ekki of mikið upp.
„Það kemur svosem ekkert á óvart að það sé verið að orða okkar leikmenn við lið erlendis miðað við hvernig við erum að spila og hversu góðir leikmenn þetta eru. Ég get því miður ekki svarað þessari spurningu," sagði Sölvi en veit hann til þess að tilboð hafi borist í þá leikmenn?
„Ég veit ekki til þess. Þú verður að spyrja einhvern annan," sagði Sölvi og glotti. Hann segist treysta leikmannahópnum að klára þau verkefni sem eftir eru af tímabilinu ef það færi svo að Logi og Ari yrðu seldir.
„Ef við værum komnir með þetta og búnir að tryggja okkur sigurinn í deildinni þá væri það auðvitað auðveldara (að missa þá). Við erum með stóran og sterkan hóp, ef svo skyldi að þessir leikmenn myndu fara þá treysti ég hópnum og þeim leikmönnum sem eru fyrir í þessum stöðum til að klára þetta tímabil fyrir okkur."
Athugasemdir