Magnús Már Einarsson skrifar frá Brussel:
„Mér fannst Hörður vera mjög góður. Hann kom mér á óvart," segir Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins. Ari var hvíldur í vináttuleiknum gegn Belgíu í gær og spilaði hinn ungi Hörður Björgvin Magnússon í hans stöðu.
„Það var kannski skynsamleg ákvörðun að fá smá hvíld og vera ferskur fyrir Tékkaleikinn. Maður neitar því samt ekki að maður er alltaf til í að spila fyrir landsliðið."
„Hlutirnir hafa gengið vel og við viljum taka annað skref í átt að Frakklandi," segir Ari en þar verður lokakeppni Evrópumótsins haldin.
Hann hefur bæði spilað sem miðjumaður og vinstri bakvörður fyrir OB í Danmörku. Sjálfur vill hann spila í bakverði og telur sig geta náð lengra með því að gera það.
„Ég held að ég muni flakka á milli en vonandi mun ég fá sem flesta leiki í bakverðinum. Það er sérstakt að spila þessar stöður því þær eru ólíkar. Ef þetta væri kantur og bakvörður væri þetta öðruvísi. Þetta eru mismunandi hlaup og mismunandi staðsetningar. Þetta er mjög spes. Ég hef ekki átt jafn gott tímabil núna og ég átti í fyrra en ég hef trú á þessu," segir Ari en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir

























