Arne Slot svaraði spurningum eftir 1-1 jafntefli Liverpool á útivelli gegn Nottingham Forest þegar liðin mættust í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar fyrr í kvöld.
Forest tók forystuna á áttundu mínútu en Liverpool tókst að jafna í síðari hálfleik en lærisveinar Slot fundu ekki sigurmarkið þrátt fyrir mikið af góðum marktilraunum.
Diogo Jota skoraði jöfnunarmark Liverpool eftir hornspyrnu frá Kostas Tsimikas, en þeir tveir voru nýkomnir inná með tvöfaldri skiptingu frá Slot. Þeir skoruðu því og lögðu upp með sinni fyrstu snertingu.
„Maður þarf að vera svolítið heppinn með skiptingar, við tókum Ibou (Konate) útaf sem er vanalega stórhættulegur í hornspyrnum og settum Jota inn því við vitum að hann getur líka skorað og hann gerði það. Tsimikas er með góðan vinstri fót og við skiptum þeim inn til að skora mark, sem þeir gerðu bókstaflega 20 sekúndum síðar. Ég tók stóran mann út fyrir lítinn í föstu leikatriði og það er hægt að segja að þetta hafi verið heppni," sagði Slot.
„Þeir vörðust hetjulega og markmaðurinn þeirra varði nokkrum sinnum ótrúlega. Þeir hentu sér fyrir öll skotin okkar og ég get ekki beðið mína leikmenn um meira en þetta. Boltinn fór bara ekki í netið. Það eru ekki mörg lið sem geta skapað svona mörg færi gegn þessum andstæðingum. Við vorum óheppnir að skora ekki annað mark. Ef við höldum áfram að spila eins og við gerðum í þessum seinni hálfleik þá munum við gera mjög góða hluti.
„Við stjórnuðum þessum leik í 97 mínútur. Þeir fengu eina skyndisókn, skoruðu og pökkuðu svo í vörn."
Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 47 stig eftir 20 umferðir, með sjö stiga forystu á Arsenal sem er í þriðja sæti og spilar við Tottenham annað kvöld.
„Við áttum skilið að sigra þennan leik alveg eins og gegn Man Utd. Þetta hefur gerst alltof oft á tímabilinu að við erum sterkara liðið en förum ekki með sigur af hólmi."
Athugasemdir