Pep Guardiola, stjóri Manchester City, hefur beðið Steven Gerrard afsökunar á ummælum sínum á fréttamannafundi á dögunum. Guardiola gerði þá grín að því þegar Liverpool missti af Englandsmeistaratitlinum 2014 eftir að Gerrard rann í leik gegn Chelsea.
„Það getur enginn tekið frá okkur stundina þegar Sergio Agüero skoraði sigurmarkið eftir sendingu frá Mario Balotelli. Ég veit ekki hvort við séum ábyrgir fyrir því þegar Steven Gerrard rann til á Anfield,“ sagði Guardiola og glotti á fundinum.
Guardiola sér nú eftir því að hafa sagt þetta en hann var að svara spurningum varðandi ásakanir ensku úrvalsdeildarinnar um að City hefði svindlað á fjárhagsreglum.
„Þetta voru heimskuleg ummæli. Hann veit hversu mikið ég dáist að honum og ber virðingu fyrir ferli hans. Ég dáist að því hvað hann hefur gert fyrir landið sem ég bý í. Ég skammast mín og hann átti þetta ekki skilið. Ég var að verja félagið mitt en kom því ekki vel frá mér. Ég bið Gerrard og fjölskyldu hans afsökunar," segir Guardiola.
Athugasemdir