banner
   þri 14. febrúar 2023 05:55
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin í dag - Veislan hefst í París og Mílanó
Neymar og Messi hafa verið í góðu stuði á tímabilinu en PSG er byrjað að hiksta.
Neymar og Messi hafa verið í góðu stuði á tímabilinu en PSG er byrjað að hiksta.
Mynd: EPA

Útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar fer loksins af stað í kvöld þar sem fyrstu tveir leikirnir í 16-liða úrslitunum fara fram í París og Mílanó.


Frakklandsmeistarar PSG mæta þar Þýskalandsmeisturum FC Bayern í sannkölluðum risaslag. Þetta er óvæntur stórslagur svona snemma í keppninni eftir að PSG endaði í 2. sæti síns riðils. PSG og Benfica enduðu með jafn mörg stig og nákvæmlega sömu markatölu bæði í riðlinum og í innbyrðisviðureignum. Því voru það heildarmörk skoruð á útivelli sem réðu úrslitum, og þar hafði Benfica betur.

Lionel Messi og Kylian Mbappe misstu af síðasta leik PSG vegna meiðsla en eru báðir í leikmannahópi kvöldsins ásamt Neymar og restinni af stjörnum prýddu liði PSG.

Á sama tíma eiga Ítalíumeistarar AC Milan heimaleik við lærisveina Antonio Conte í Tottenham. Hvorugt lið hefur verið að gera sérlega góða hluti á tímabilinu og verður athyglisvert að fylgjast með Conte mæta á San Siro á nýjan leik, eftir að hafa unnið ítölsku deildina með Inter 2020-21.

Leikir kvöldsins:
19:45 PSG - FC Bayern (Viaplay)
19:45 Milan - Tottenham (Stöð 2 Sport 2)


Athugasemdir
banner
banner