banner
   þri 14. febrúar 2023 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Móðirin kemur Zaniolo til varnar: Hann er enginn svikari
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Francesca Costa, móðir Nicoló Zaniolo, gaf ítarlegt viðtal við Corriere dello Sport þar sem hún sakar AS Roma um lygar.


Það var mikil dramatík í kringum félagsskipti Zaniolo frá Roma en hann endaði á að vera keyptur til Galatasaray eftir að janúarglugginn lokaði.

Zaniolo er sagður hafa beðið um sölu frá Roma og hafnað svo að ganga til liðs við Bournemouth vegna áhuga frá AC Milan og Tottenham, sem gátu ekki leyft sér að leggja fram nægilega gott kauptilboð í sóknartengiliðinn öfluga. Roma samþykkti 30 milljónatilboð Bournemouth en Zaniolo neitaði að ganga til liðs við félagið. Fjölmiðlar sögðu að hann hafi ekki einu sinni viljað hitta fulltrúa félagsins sem flugu til Rómar til gera honum samningstilboð.

„Sonur minn er ekki geðveikur og heldur ekki svikari þó að félagið hafi reynt að láta hann líta út fyrir það. Þetta er strákur sem gerir mistök eins og allir aðrir en hann er alls ekki þessi bitra manneskja sem hefur verið teiknuð upp í fjölmiðlum undanfarnar vikur," segir móðir hans.

„Félagið setti 50 til 60 milljón evru verðmiða á Nicoló síðasta sumar og það var ekkert félag reiðubúið til að kaupa hann fyrir það mikinn pening. Hann varð svekktur þegar félagið neitaði að bjóða honum samning í samræmi við þennan verðmiða á meðan liðsfélagarnir hans voru að fá nýja samninga. Að lokum sagði félagið við hann að hann væri ekki partur af áformum þjálfarans og að hann yrði seldur næsta sumar. Það leiddi til þess að Nicoló fór fram á að vera seldur strax í janúar.

„Allar sögur um að Nicoló sé svikari og að hann hafi hætt að spila fyrir Roma í mótmælaskyni eru lygasögur. Hann var ekki í hóp í leikjunum í janúar vegna þess að stressið var orðið svo mikið að það var byrjað að hafa líkamleg áhrif á hann. Ljósin voru slökkt. Hann þurfti að skipta um andrúmsloft."

Francesca sendi svo skilaboð til stuðningsmanna AS Roma sem eru þekktir fyrir að vera ofbeldisfullir og afar ástríðufullir. Sú ástríða getur auðveldlega orðið að hatri og brotist út í formi hótana, en hollenski bakvörðurinn Rick Karsdorp er einn þeirra sem hefur fundið fyrir því.

„Hvorki ég, sonur minn, né nokkur annar fjölskyldumeðlimur hefur nokkuð gegn stuðningsmannahópi Roma. Við munum alltaf bera virðingu fyrir 'romanisti' og vera þeim þakklát fyrir árin sem við áttum saman. Ég skil alla þessa gagnrýni á son minn útaf því að það var logið að ykkur og þið mynduðuð skoðun útfrá röngum upplýsingum.

„Að lokum vil ég hafa eitt á hreinu: Nicoló hefði þess vegna verið tilbúinn til að taka á sig launalækkun til að ganga í raðir Milan eða Tottenham, en þau náðu ekki samkomulagi við Roma um kaupverð. Þá opnaðist Bournemouth möguleikinn en það er bull að félagið hafi boðið okkur 5 milljónir á ári. Ekki möguleiki.

„Það er satt að hann hafi hafnað fyrsta tilboðinu, en þegar við hringdum aftur í Bournemouth var félagið búið að finna annan leikmann í hans stað." Sá leikmaður er Hamed Traore sem var fenginn úr röðum Sassuolo.

Zaniolo er 23 ára gamall og hefur skorað 24 mörk í 128 leikjum með Roma þrátt fyrir mikil meiðslavandræði.


Athugasemdir
banner
banner