
Ibrahima Balde var fyrr í þessum mánuði úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir ofsafengna framkomu í leik Þórs og ÍR í Lengjubikarnum en Balde skallaði Óðinn Bjarkason í leik liðanna. Balde og Óðinn voru að kítast sem endaði með því að Balde rak höfuð sitt í enni Óðins sem féll í grasið. Þór áfrýjaði niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar en sú áfrýjun bar ekki árangur.
Balde var í leikbanni þegar Þór mætti FH í vikunni. Fótbolti.net ræddi við Svein Elías Jónsson, formann fótboltadeildar Þórs, í dag.
Balde var í leikbanni þegar Þór mætti FH í vikunni. Fótbolti.net ræddi við Svein Elías Jónsson, formann fótboltadeildar Þórs, í dag.
„Það kom fram í leikskýrslunni að þetta hefði verið ofsafengin hegðun. Fyrir alla sem sáu atvikið þá held ég að allir geti verið sammála um að það var ekki. Hann lét vissulega veiða sig í gildru og ég held að ég hafi líka veitt menn í svona gildrur á sínum tíma sem leikmaður. En að þetta kallist ofsafengin hegðun... þetta var óíþróttamannsleg hegðun, svona gerir maður ekki. Við myndum aldrei leggja blessun okkar yfir svona. Þetta er ekki hegðun sem við viljum að leikmennirnir okkar séu að sýna. Það er mitt mat að þetta hafi ekki verið ofsafengin hegðun, það er enginn að valda neinum skaða þarna. Ég held að það sé alveg ljóst."
„Dómararnir sögðu það alltaf við mig þegar ég var leikmaður að þeirra hlutverk væri að vernda leikmenn. Það má öllum vera ljóst að leikmaður ÍR í þessu tilviki bar engan skaða af þessu, það er held ég alveg á hreinu."
„Þetta er rautt spjald og leikbann, við erum alveg sammála því - erum ekki að leggja blessun á að menn skalli aðra leikmenn. Það eina sem vakti fyrir okkur var það að við reiknuðum með að fara áfram í undanúrslit og þá hefðum verið að missa hann út í tvo mikilvæga leiki í viðbót," segir Sveinn Elías. Þór hefði farið í undanúrslit með sigri á FH á þriðjudag en sá leikur endaði með jafntefli og ÍR fór áfram úr riðlinum.
Sveinn Elías var spurður hvort hann vildi tjá sig um lengd leikbannsins út frá niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar á þriðjudag en þá var Samúel Kári Friðjónsson dæmdur í einungis tveggja leikja bann fyrir mjög ljóta tæklingu. „Nei nei, mér kemur ekkert við hvað aga- og úrskurðarnefnd ákveður í málum sem koma okkur ekkert við."
Athugasemdir