Dean Huijsen, varnarmaður Bournemouth, er ánægður með að liðið sé komið aftur á sigurbraut eftir að hafa farið í gegnum sex deildarleiki án sigurs.
Bournemouth marði 1-0 sigur á Fulham í kvöld en það var fyrsti sigurinn síðan 15. febrúar.
Þá var Bournemouth í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti, en í dag er liðið að halda í vonina um að komast í Evrópu- eða Sambandsdeild.
Huijsen, sem hefur risið á toppinn á þessu tímabili, fagnaði tvítugsafmæli sínu í dag og gat því ekki beðið um betri afmælisgjöf.
„Þetta mun klárlega verða eftirminnilegur afmælisdagur. Við gerðum svo vel í dag sem lið, ekki endilega hvernig við spiluðum, heldur hvernig við börðumst fyrir hvorn annan. Það er geggjað að komast aftur á sigurbraut og núna erum við komnir aftur í baráttuna um Evrópusæti.“
„Við fundum viljann til að vinna, vorum hungraðir í að taka sigurinn og bara gott dagsverk hjá öllum.“
„Ég hef trú á hæfileikum mínum og reyni alltaf að gera mitt besta fyrir liðið. Stuðningsmennirnir voru frábærir og gáfu okkur svo sannarlega aukin styrk.“
„Við spilum hápressu fótbolta og í þeim skilningi erum við óttalausir, þannig ég er bara hæstánægður með að við unnum leikinn,“ sagði Huijsen.
Athugasemdir