Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
   mið 15. maí 2024 22:22
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Atlético í Meistaradeildina - Celta fjarlægist fallsvæðið
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur seinni leikjum kvöldsins er lokið í efstu deild spænska boltans þar sem Atlético Madrid tryggði sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu með þægilegum sigri á útivelli gegn Getafe.

Antoine Griezmann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í 0-3 sigri, þar sem Atlético átti aðeins þrjár marktilraunir sem hæfðu rammann í leiknum.

Samuel Lino gaf tvær stoðsendingar eftir að Rodrigo De Paul lagði fyrsta mark leiksins upp.

Atlético er búið að tryggja sér fjórða sæti deildarinnar en getur enn barist um annað og þriðja sætið. Getafe siglir lygnan sjó um miðja deild, en þetta var þriðji tapleikur liðsins í röð.

Celta Vigo vann þá gríðarlega mikilvægan sigur á heimavelli gegn Athletic Bilbao. Gestirnir frá Bilbao leiddu í leikhlé eftir mark frá Álex Berenguer en Celta var sterkari aðilinn í síðari hálfleik.

Heimamenn í Celta gerðu þrefalda skiptingu í hálfleik þar sem kantmaðurinn ungi Hugo Alvarez kom meðal annars inn af bekknum og átti heldur betur eftir að reynast drjúgur.

Alvarez lagði jöfnunarmarkið upp fyrir jafnaldra sinn Williot Swedberg á 68. mínútu áður en hann skoraði sjálfur þremur mínútum síðar til að taka forystuna.

Celta gerði vel að halda í forystuna til leiksloka og skóp að lokum verðskuldaðan sigur til að fjarlægjast fallbaráttuna.

Celta er núna fimm stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir af deildartímabilinu, en þetta var þriðji sigur liðsins í röð á heimavelli.

Athletic situr í fimmta sæti og er einum sigri frá því að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar næsta haust.

Getafe 0 - 3 Atletico Madrid
0-1 Antoine Griezmann ('27 )
0-2 Antoine Griezmann ('42 )
0-3 Antoine Griezmann ('51 )

Celta 2 - 1 Athletic
0-1 Alejandro Berenguer ('23 )
1-1 Williot Swedberg ('68 )
2-1 Hugo Alvarez Antunez ('71 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner