Þrír orðaðir við Man City - Chelsea og Liverpool á eftir Kerkez - Fer Vlahovic til Arsenal?
   lau 14. desember 2024 17:08
Brynjar Ingi Erluson
England: Tíu leikmenn Liverpool gerðu jafntefli við Fulham - Arsenal fór illa að ráði sínu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal tapaði stigum
Arsenal tapaði stigum
Mynd: Getty Images
Newcastle skoraði fjögur
Newcastle skoraði fjögur
Mynd: Getty Images
Gary O'Neil var líklega að stýra sínum síðasta leik með Wolves
Gary O'Neil var líklega að stýra sínum síðasta leik með Wolves
Mynd: Getty Images
Topplið Liverpool tapaði stigum í toppbaráttunni í dag er liðið gerði 2-2 jafntefli við Fulham á Anfield en liðið spilaði manni færri stærstan hluta leiksins eftir að Andy Robertson fékk að líta rauða spjaldið. Arsenal fór þá illa að ráði sínu í markalausu jafntefli gegn Everton á Emirates.

Liverpool byrjaði á afturfótunum gegn Fulham. Andreas Pereira kom gestunum í 1-0 á 11. mínútu er hann stýrði fyrirgjöf Antonee Robinson í netið.

Ekki hjálpaði það heimamönnum er Andy Robertson fékk að líta rauða spjaldið sex mínútum síðar eftir að hafa tekið Harry Wilson niður sem var að sleppa einn í gegn.

Löng sending kom út á hægri vænginn sem Robertson virtist vera með í teskeið, en svo var aldeilis ekki. Bakvörðurinn missti hann klaufalega frá sér og í hlaupaleið Wilson. Robertson sá því ekkert annað ráð en að taka Wilson niður og uppskar verðskuldað rautt spjald.

Luis Díaz komst næst því að jafna metin fyrir Liverpool í fyrri hálfleiknum en skalli hans fór yfir markið.

Gestirnir fengu blauta tusku í andlitið þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Mohamed Salah kom með frábæra fyrirgjöf á fjær á Cody Gakpo sem kastaði hausnum fram og stangaði boltann í netið.

Liverpool bankaði hressilega á dyrnar hjá Fulham í síðari hálfleiknum en þegar leið á leikinn minnkaði ákefðin. Fulham náði að teygja aðeins á Liverpool-mönnum og skora sigurmark á 76. mínútu er Rodrigo Muniz stýrði annarri fyrirgjöf Robinson í netið.

Heimamenn gáfust ekki upp og var það auðvitað skrifað í skýin að varamaðurinn Diogo Jota, sem hefur verið frá síðustu mánuði, hafi skorað jöfnunarmarkið og það eftir stoðsendingu frá Darwin Nunez sem hefur fengið mikla gagnrýni síðustu vikur.

Nunez fékk boltann á milli lína, kom með laglega sendingu inn fyrir á Jota sem skildi Jorge Cuenca eftir í reyknum áður en hann lagði boltann í vinstra hornið.

Góð endurkoma hjá Liverpool og Arne Slot eflaust sáttur með stigið svona úr því sem komið var. Liverpool er með fimm stiga forystu á toppnum eftir sextán leiki en Chelsea getur saxað á forystuna er liðið fær Brentford í heimsókn á morgun.

Markalaust hjá Arsenal og Everton

Arsenal og Everton gerðu markalaust jafntefli á Emirates-leikvanginum í Lundúnum.

Everton-mönnum tókst að halda heimamönnum í skefjum meira og minna allan leikinn.

Arsenal hélt vel í boltann í leiknum og skapaði sér góðar stöður, en voru samt ekki sannfærandi á síðasta þriðjungi vallarins. Liðið hefur nýtt sér föstu leikatriðin vel á tímabilinu og það verið þeirra helsta ógn í sóknarleiknum, en lærisveinar Sean Dyche svöruðu því vel.

Undir lok leiks vildu leikmenn Arsenal fá vítaspyrnu er Thomas Partey féll í teignum eftir viðskipti sín við Vitaly Mykolenko en VAR sagði einfaldlega nei — engin vítaspyrna.

Markalaust jafntefli niðurstaðan og Arsenal nú sex stigum frá toppliði Liverpool. Everton er á meðan í 15. sæti með 15 stig.

Wolves tapaði fyrir nýliðum Ipswich Town, 2-1, á Molineux-leikvanginum í Wolverhampton í leik sem var sennilega sá síðasti í stjórnartíð Gary O'Neil.

Bakvörðurinn Matt Doherty varð fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net á 15. mínútu. Markið var afar slysalegt og í raun ótrúlegt að Omari Hutchinson hafi hreinlega ekki skorað stuttu áður.

Hutchinson fékk boltann fyrir opnu marki, tók gabbhreyfingu og ætlaði að klára færið en Wolves bjargaði á línu. Boltinn datt út á Conor Chaplin sem þrumaði boltanum í Doherty og þaðan lak hann í netið.

Matheus Cunha jafnaði fyrir Wolves á 72. mínútu eftir undirbúning Goncalo Guedes en seint í uppbótartíma unnu nýliðarnir leikinn með marki Jack Taylor.

Svekkjandi úrslit fyrir Wolves sem er í næst neðsta sæti með 9 stig og bráðum stjóralausir á meðan Ipswich er með 12 stig í sætinu fyrir ofan.

Newcastle United gekk frá Leicester City, 4-0, á St. James' Park en markmannsskiptin í hálfleik gerðu útslagið hjá gestunum.

Jacob Murphy kom Newcastle yfir á 30. mínútu leiksins en í hálfleik þurfti Ruud van NIstelrooy, stjóri Leicester, að taka besta mann sinn af velli, Mads Hermansen, og setja Danny Ward í markið.

Hermansen hafði gert mjög vel en gat ekki haldið leik áfram vegna meiðsla og kom því Ward inn fyrir hann.

Ward gat lítið gert í þessum þremur mörkum sem Newcastle skoraði í síðari hálfleik. Bruno Guimaraes skoraði gott skallamark eftir frábærlega útfærða aukaspyrnu áður en Alexander Isak skoraði af stuttu færi.

Isak lagði upp fjórða markið fyrir Murphy sem hamraði boltanum undir Ward í markinu.

Góður og þægilegur sigur Newcastle sem er í 11. sæti með 23 stig en Leicester í 16. sæti með 14 stig.

Arsenal 0 - 0 Everton

Liverpool 2 - 2 Fulham
0-1 Andreas Pereira ('11 )
1-1 Cody Gakpo ('47 )
1-2 Rodrigo Muniz ('76 )
2-2 Diogo Jota ('86 )
Rautt spjald: Andrew Robertson, Liverpool ('17)

Newcastle 4 - 0 Leicester City
1-0 Jacob Murphy ('30 )
2-0 Bruno Guimaraes ('47 )
3-0 Alexander Isak ('50 )
4-0 Jacob Murphy ('60 )

Wolves 1 - 2 Ipswich Town
0-1 Matthew Doherty ('15 , sjálfsmark)
1-1 Matheus Cunha ('72 )
1-2 Jack Taylor ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner