Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 15. janúar 2023 21:02
Brynjar Ingi Erluson
Spænski ofurbikarinn: Gavi geggjaður í sannfærandi sigri á Real Madrid
Gavi skoraði og lagði upp tvö í El Clásico
Gavi skoraði og lagði upp tvö í El Clásico
Mynd: EPA
Robert Lewandowski átti þátt í öllum mörkunum
Robert Lewandowski átti þátt í öllum mörkunum
Mynd: EPA
Real Madrid 1 - 3 Barcelona
0-1 Gavi ('33 )
0-2 Robert Lewandowski ('45 )
0-3 Pedri ('69 )
1-3 Karim Benzema ('90 )

Barcelona er sigurvegari spænska ofurbikarsins eftir að hafa unnið Real Madrid sannfærandi, 3-1, í úrslitaleiknum í kvöld. Hinn 18 ára gamli Gavi lék á als oddi.

Börsungar sköpuðu hættu strax í byrjun leiks. Robert Lewandowski náði góðu skoti eftir hlaup frá Gavi en Thibaut Courtois rétt náði að teygja sig í boltann og verja í stöng.

Karim Benzema gerði sig líklegan nokkrum mínútum síðar en skalli hans fór rétt framhjá eftir fyrirgjöf Ferland Mendy.

Varnarleikur Madrídingar í molum á 33. mínútu. Leikmenn reyndu að spila úr vörninni en Barcelona vann boltann áður en Lewandowski fékk hann við vítateiginn. Hann kom með laglega sendingu inn á Gavi sem skoraði í fjærhornið.

Undir lok fyrri hálfleiks bætti Lewandowski við öðru marki Börsunga. Frenkie de Jong átti allan heiðurinn af því en hann náði að pota boltanum inn fyrir vörnina og á Gavi á vinstri vængnum en Spánverjinn kom með laglega sendingu fyrir markið á Lewandowski sem skoraði af stuttu færi.

Ousmane Dembel var nálægt því að skora þriðja markið í byrjun síðari hálfleiks eftir frábæran sprett frá Alejandro Balde en Courtois gerði sig breiðan og varði meistaralega.

Aftur lentu Madrídingar í vandræðum í vörninni. Gavi komst inn í slaka sendingu til baka og kom boltanum á Lewandowski áður en hann kom boltanum aftur á Gavi. Spænski táningurinn gaf hann síðan fyrir á Pedri á fjærstönginni sem skoraði örugglega.

Karim Benzema skoraði sárabótamark fyrir Madrídinga undir lok leiksins. Dani Ceballos kom boltanum á Benzema sem skaut á Marc-andre ter Stegen. Þýski markvörðurinn varði en Benzema hirti frákastið og skoraði í annarri tilraun.

Barcelona er því spænskur ofurbikarmeistari árið 2023 eftir magnaða frammistöðu. Minnti helst á 4-0 sigur liðsins í La Liga á síðasta tímabili þar sem liðið yfirspilaði Real Madrid í El Clásico.
Athugasemdir
banner
banner
banner