Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 15. febrúar 2023 16:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gleymdist að vökva í Kórnum - „Biðjumst innilegrar afsökunar á þessu"
Úr Kórnum.
Úr Kórnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Örn Hauksson, leikmaður Grindavíkur, gagnrýndi aðstæður í Kórnum í Kópavogi eftir 4-0 tapleik gegn HK í Lengjubikar karla síðasta laugardag.

„Þessi völlur er ekki boðlegur. Ég er virkilega ósáttur við að spila á þurru skítagervigrasi. Þeir mega taka það til sín. Upp á heilsu leikmanna og annað er þetta galið, á ekki að gerast. Mér finnst þetta ekki vera boðlegt," sagði Óskar.

Það á að spila í Kórnum í Bestu deildinni í sumar þar sem HK leikur í efstu deild á nýjan leik.

Grasið stenst þær kröfur sem gerðar eru, það var prófað hjá FIFA árið 2021 og gildir það í þrjú ár. Það gleymdist hins vegar einfaldlega að vökva það fyrir leikinn síðasta laugardag en Kópavogsbær á að sjá um það.

„Mistökin liggja hjá okkur. Það er ekki vökvunarkerfi í Kórnum og við berum ábyrgð á þessu. Sem betur fer slasaðist enginn. Við biðjumst innilegrar afsökunar á þessu," segir Ómar Stefánsson, forstöðumaður íþróttavalla í Kópavogi. „Við lofum að þetta gerist ekki aftur."

Grasið sem er núna í Kórnum var lagt í janúar 2018 og verður skipt út samkvæmt áætlun á næsta ári. Kórinn er mikið notaður, það er mikið álag og hefur það auðvitað áhrif á gæðin en það stóðst prófið hjá FIFA fyrir tveimur árum. Grasið er núna á síðasta tímabili sínu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner