Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 15. febrúar 2023 10:56
Elvar Geir Magnússon
Íransk-amerískur milljarðamæringur undirbýr tilboð í Tottenham
Jahm Najafi ætlar að gera tilboð í Tottenham.
Jahm Najafi ætlar að gera tilboð í Tottenham.
Mynd: Samsett
Leikmenn Tottenham fagna.
Leikmenn Tottenham fagna.
Mynd: EPA
Íransk-ameríski milljarðamæringurinn Jahm Najafi er að búa sig undir að gera 3,1 milljarða punda tilboð í Tottenham. Daily Mail og fleiri fjölmiðlar greina frá þessu.

Najafi, sem er formaður MSP Sports Capital, er að vinna með hópi fjárfesta sem hyggst gera stórt tilboð í Tottenham og fara í viðræður við núverandi eigendur, Joe Lewis og stjórnarformanninn Daniel Levy.

Tilboðið verður sett þannig upp að Najafi og MSP greiða 70% en aðrir fjárfestar 30%. Þeir fjárfestar koma líklega frá Arabíuskaganum.

Tottenham er metið á um 2,5 milljarða punda en skuldir félagsins eru um 610 milljónir punda og tekur tilboðið mið að því.

Talið er að stuðningsmenn Tottenham séu spenntir fyrir mögulegum eigendaskiptum. Núverandi eigendur hafa verið sakaðir um metnaðarleysi og reglulega hafa verið skipuð mótmæli.

Levy er andlit félagsins en Lewis býr á Bahamaeyjum og er ekki áberandi.

Bandaríkjamenn hafa verið að gera sig gildandi í ensku úrvalsdeildinni. Bandarískir eigendur hafa á undanförnum tólf mánuðum keypt Chelsea og Bournemouth.

Najafi er 60 ára og flutti til Bandaríkjanna frá Íran þegar hann var tólf ára gamall. Hann útskrifaðist frá Harvard háskóla með meistaragráðu í viðskiptafræði. Hann er varaformaður Phoenix Suns í NBA-deildinni og situr einnig í stjórn deildarinnar. Þá á hann hlut í McLaren í Formúlu 1.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner