Alexander Máni Guðjónsson, leikmaður Stjörnunnar, æfir með danska stórveldinu FCK út þessa viku.
Þessi 14 ára gamli leikmaður er talinn með efnilegustu leikmönnum landsins en hann er til skoðunar hjá mörgum félögum víðs vegar um Evrópu.
Í febrúar dvaldi hann hjá portúgalska félaginu Benfica, þar sem hann æfði og spilaði með unglingaliðum félagsins.
Alexander er þessa dagana staddur í Kaupmannahöfn þar sem hann æfir með danska stórveldinu FCK, en hann verður þar næstu vikuna áður en hann heldur aftur heim.
Hjá FCK hitti hann Gunnar Orra Olsen, fyrrum liðsfélaga sinn hjá Stjörnunni, en Gunnar gekk í raðir FCK í byrjun ársins.
Þetta er annað danska liðið sem Alexander æfir með á stuttum tíma en fyrir nokkrum vikum æfði hann með Midtjylland, lið Daníels Freys Kristjánssonar og Sverris Inga Ingasonar.
Alexander æfði með meistaraflokki Stjörnunnar á undirbúningstímabilinu og kom við sögu í æfingaleikjum undir stjórn Jökuls Elísabetarsonar. Hann er sonur Guðjóns Baldvinssonar, fyrrum sóknarmanns Stjörnunnar.
Athugasemdir