þri 15. júní 2021 13:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ronaldo skorað 22 mörk gegn Ungverjum en aldrei í Ungverjalandi
Mynd: Getty Images
Ungverska íþróttablaðið Nemzeti Sport vekur athygli á þeirri staðreynd í dag að Ronaldo hefur mætt ungversku liði 27 sinnum á ferlinum. Þá er átt við félagslið frá Ungverjandi, félagslið með ungverja innaborðs og ungverska landsliðið.

Í grein í blaðinu er bent á þá staðreynd að Cristiano Ronaldo hafi aldrei skorað mark í Ungverjalandi sem veit á gott fyrir Ungverja.

Ungverjaland og Portúgal mætast í Búdapest klukkan 16:00 í fyrsta leik sínum á EM. Ronaldo verður að öllum líkindum í byrjunarliði Portúgals í leiknum. Þetta verður í fimmta sinn sem Ronaldo spilar í Búdapest.

Í greininni er komið inn á það að Ronaldo hafi skorað 22 mörk í þessum 27 leikjum. Fyrsti leikurinn var með Manchester United gegn WBA árið 2004. Þá var Zoltan Gera í liði WBA. 27. leikurinn var svo gegn Ferencvaros í Meistaradeildinni í nóvember á síðasta ári.

Ronaldo hefur skorað fjögur mörk gegn ungverska landsliðinu. Hann hefur skorað 740 mörk á ferlinum og 102 þeirra í landsleikjum.
Athugasemdir
banner
banner