Stuðningsmenn danska landsliðsins lentu illa í barðinu á enskum fótboltabullum eftir tap í undanúrslitum Evrópumótsins á Wembley.
Þessi hópur stuðningsmanna enska landsliðsins hefur verið þjóð sinni til skammar ítrekað í gegnum Evrópumótið og þá sérstaklega í úrslitakeppninni.
Eftir sigur gegn Dönum í framlengdum leik urðu stuðningsmenn Dana fyrir tilgangslausum árásum frá enskum bullum. Fjölskyldufólk varð fyrir barðinu á þeim og hafa hingað til 43 Danir deilt neikvæðri reynslu sinni af undanúrslitaleiknum.
Dönsku stuðningsmennirnir settu stór spurningarmerki við gæsluna þar sem hvorki var skoðað ofan í töskur né litið á Covid-passa fjölda áhorfenda fyrir leik.
Eftir leikinn var nóg af gæslu á Wembley en flestir stuðningsmenn urðu fyrir barðinu á Englendingum á leið sinni heim, í almenningssamgöngum eða fótgangandi.
Ýmis börn voru viðstödd ofbeldið þar sem einhverjar bullur voru ekki að hlífa fjölskyldufólki.
Allessandra Nörreriis, sem býr í Manchester og var á úrslitaleiknum, sendi raunasögurnar 43 til danska knattspyrnusambandsins.
„Við erum snortin að lesa sumar af þessum sögum frá dönsku stuðningsmönnunum á Wembley. Það er mikilvægt að það sé skemmtilegt og öruggt að fara á fótboltaleik. Við tökum þessu máli mjög nærri okkur og fórum með það til UEFA sem hefur fullvissað okkur um að málið verður rannsakað til hins ýtrasta," sagði Ronnie Hansen hjá danska knattspyrnusambandinu.
Athugasemdir