þri 16. febrúar 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stór mistök og opnir til baka - „Upamecano manna verstur í þessum mistökum"
Mynd: Getty Images
„Ég held að það sé klárt að Liverpool fari áfram úr þessu einvígi," sagði Reynir Leósson, sérfræðingur Stöð 2 Sport, eftir 0-2 sigur Liverpool á RB Leipzig í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Honum og Hjörvari Hafliðasyni var lítt skemmt yfir frammistöðu RB Leipzig í kvöld og þeirra áhættusama fótbolta.

„Maður vissi að Leipzig-liðið er vilt en það var sjokkerandi að sjá hversu opnir þeir voru, hversu mikið þeir gáfu sér á sér og hversu langt var á milli manna í öftustu línu."

Leipzig gerði mikið af mistökum í uppspili sínu og tapaði ítrekað boltanum en liðið er mikið að reyna að spila boltanum stutt og niður með jörðu. „Þetta er ágætis pressa hjá Liverpool. Upamecano var eiginlega manna verstur í þessum mistökum," sagði Hjörvar en Upamecano var nýlega keyptur til Bayern München fyrir næstu leiktíð.

„Stundum finnst þér þú bjóða hættunni of mikið heim. Þeim leið heldur ekki vel með hvað þeir voru að gera. Liverpool var búið að skoða þá vel," sagði Reynir og um fyrsta mark Liverpool sagði hann: „Þetta er galin sending sem kostar þá mikið."

Reynir talaði þá um að í öðru markinu hefði verið átakanlega langt á milli manna en þar gerði Nordi Mukiele stór mistök.

Hægt er að sjá mörkin í leiknum hérna og hérna. Seinni leikur Liverpool og Leipzig fer fram 10. mars.
Athugasemdir
banner
banner
banner