Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
   sun 16. júní 2024 17:20
Ívan Guðjón Baldursson
Hlín skoraði sigurmarkið - Rosengård með annan sjö marka sigur
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í sænska kvennaboltanum í dag, þar sem Hlín Eiríksdóttir skoraði sigurmark Kristianstad á útivelli gegn Djurgården.

Hlín skoraði annað mark leiksins til að koma Kristianstad í tveggja marka forystu undir lok fyrri hálfleiks en heimakonur minnkuðu muninn í síðari hálfleik.

Hlín fékk tækifæri til að gera útaf við viðureignina á 74. mínútu en klúðraði af vítapunktinum. Það kom þó ekki að sök og dýrmætur sigur staðreynd.

Kristianstad er í fjórða sæti eftir þennan sigur, með 22 stig eftir 10 umferðir. Djurgården er í fimmta sæti með 17 stig. Hlín hefur komið að sjö mörkum í tíu fyrstu deildarleikjunum.

Guðný Árnadóttir lék allan leikinn í varnarlínu Kristianstad í dag og þá var Katla Tryggvadóttir einnig í byrjunarliðinu.

Guðrún Arnardóttir var þá á sínum stað í ógnarsterkri varnarlínu Rosengård sem er á ótrúlegu flugi á toppi deildarinnar. Liðið er með fullt hús stiga eftir 11 fyrstu umferðirnar.

Guðrún og stöllur hafa aðeins fengið tvö mörk á sig á deildartímabilinu og unnu þær sjö marka sigur á útivelli gegn Brommapojkarna í dag. Þetta er annar sjö marka útisigurinn í röð hjá Rosengård í deildinni og er liðið með níu stiga forystu á toppinum.

Þórdís Elva Ágústsdóttir var í byrjunarliði Växjö sem tapaði útileik gegn AIK eftir að hafa leitt í hálfleik.

Þórdís Elva spilaði fyrstu 80 mínútur leiksins og þá fékk Bryndís Arna Níelsdóttir að spreyta sig á lokakaflanum. Hún kom inn á 69. mínútu en tókst ekki að hafa áhrif á úrslitin.

Lokatölur urðu 2-1 fyrir AIK sem er enn í fallsæti. Växjö er í neðri hluta deildarinnar með 13 stig eftir 11 umferðir.

Að lokum tapaði Íslendingalið Örebro útileik gegn Linköping. Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir var í byrjunarliðinu og kom Katla María Þórðardóttir inn af bekknum þegar Áslaugu var skipt útaf á 57. mínútu. Bergþóra Sól Ásmundsdóttir sat á bekknum allan tímann.

Örebro tapaði leiknum 2-1 og er áfram í fallsæti, með 5 stig eftir 11 umferðir.

Djurgarden 1 - 2 Kristianstad
0-1 E. Alanen ('40)
0-2 Hlín Eiríksdóttir ('45)
1-2 T. Asland ('57, víti)
1-2 Hlín Eiriksdóttir, misnotað víti ('74)

Brommapojkarna 0 - 7 Rosengard

AIK 2 - 1 Vaxjo

Linkoping 2 - 1 Orebro

Athugasemdir
banner
banner