„Það er gott að koma hingað og vinna, og halda hreinu," sagði landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir eftir 0-1 sigur gegn Póllandi í lokaleiknum í undankeppni EM 2025.
„Þótt stigin skipti í raun engu máli út frá öðrum niðurstöðum þá skiptir þetta okkur miklu máli. Þetta var erfiður leikur við erfiðar aðstæður. Við vorum í ótrúlega löngu ferðalagi á sunnudaginn þannig maður fann þreytuna í hópnum, en samt var vinnuframlagið upp á tíu og allir leikmenn voru að gefa alla sína orku. Það skilaði okkur þessum sigri í dag."
„Þótt stigin skipti í raun engu máli út frá öðrum niðurstöðum þá skiptir þetta okkur miklu máli. Þetta var erfiður leikur við erfiðar aðstæður. Við vorum í ótrúlega löngu ferðalagi á sunnudaginn þannig maður fann þreytuna í hópnum, en samt var vinnuframlagið upp á tíu og allir leikmenn voru að gefa alla sína orku. Það skilaði okkur þessum sigri í dag."
Lestu um leikinn: Pólland 0 - 1 Ísland
Ewa Pajor, einn besti sóknarmaður í heimi, er í liði Pólverja en það gekk vel hjá Glódísi og íslensku vörninni að eiga við hana.
„Hún er heimsklassa leikmaður og það er alltaf erfitt að eiga við hana. Hún er gríðarlega fljót og er í heimsklassa. Það er alltaf erfitt verkefni að spila við hana."
„Ég er ótrúlega stolt af öllum hópnum og hvernig við höfum tekið skref fram á við í hverju einasta verkefni. Það eru allir hérna fyrir liðið og þannig viljum við hafa það."
Glódís sýndi það enn og aftur í kvöld að hún er einn besti leikmaður í heimi. Hún átti magnaðan landsliðsglugga en eftir leikinn í kvöld var hún spurð út í ummæli sem Freyr Alexandersson, fyrrum landsliðsþjálfari, lét falla í samtali við RÚV fyrir leikinn. Freyr sagðist þá hafa sagt við Glódísi fyrir tíu árum að hún yrði besti varnarmaður í heimi.
„Ég er ánægð með þann stað sem ég er á í dag og Freyr á þátt í því. Hann kenndi mér margt og gerði mikið fyrir mig á sínum tíma þegar hann var landsliðsþjálfari. Ég er mjög ánægð en ég er alltaf að læra og mig langar að verða betri. Ég er þakklát að spila með svona flottum hóp eins og er hérna. Þá get ég lært. Og úti er ég líka að spila í umhverfi sem ég get alltaf þróast í og orðið betri."
Ertu besti miðvörður í heiminum?
„Nei, ég gæti talið upp nokkrar sem mér finnst betri en ég," sagði Glódís og hló.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan þar sem Glódís ræðir um framhaldið með landsliðinu.
Athugasemdir