Evrópumótið 2025 fer fram í Sviss næsta sumar og eru 9 lið af 16 búin að tryggja sér þátttöku á mótinu.
Heimakonur í Sviss þurfa ekki að taka þátt í undankeppninni en lokaumferð undankeppninnar fór fram í dag.
Ísland, Þýskaland, Spánn, Danmörk og Frakkland voru öll, ásamt Sviss, búin að tryggja sér þátttökurétt á lokamótinu fyrir lokaumferðina og bættust Ítalía, Holland og England við í dag.
Holland og England komust upp úr sitthvorum dauðariðlinum í undankeppninni, þar sem ógnarsterk landslið Noregs og Svíþjóðar eru skilin eftir.
Holland gerði jafntefli við Noreg til að tryggja sig á lokamótið, þar sem markavélin Vivianne Miedema skoraði jöfnunarmark Hollendinga á 80. mínútu er þjóðirnar mættust í Bergen.
Hin feykiöfluga Caroline Graham Hansen gerði mark Noregs á 61. mínútu en það dugði ekki til og því þurfa þær norsku að fara í gegnum umspil til að reyna að tryggja sér sæti á lokamótinu.
Svíþjóð þarf einnig að fara í gegnum umspilið eftir jafntefli á heimavelli gegn Englandi, þar sem liðin mættust í hreinum úrslitaleik um annað sæti riðilsins.
Þau gerðu markalaust jafntefli þó að þær sænsku hafi fengið fleiri og betri færi.
Í dauðariðli Hollendinga mátti einnig finna Ítalíu og Finnland sem áttu bæði möguleika á að komast á EM með sigri í dag, en það voru þær ítölsku sem unnu sannfærandi 4-0 sigur á heimavelli til að tryggja sér þátttökuréttinn.
Írland vann þá afar ólíklegan heimasigur á Frökkum, en þær frönsku voru nú þegar búnar að tryggja sig á EM. Þetta gat þó reynst mikilvægur leikur fyrir Frakkland sem hefði getað misst toppsæti undanriðilsins til Englands, en þeim ensku mistókst að sigra sinn leik úti í Svíþjóð.
Pólland 0 - 1 Ísland
Þýskaland 4 - 0 Austurríki
Noregur 1 - 1 Holland
Ítalía 4 - 0 Finnland
Svíþjóð 0 - 0 England
Írland 3 - 1 Frakkland
Danmörk 2 - 0 Tékkland
Spánn 2 - 0 Belgía
Athugasemdir