Þróttur Vogum náði því markmiði í sumar að komast upp úr 4. deildinni. Andri Steinn Birgisson, þjálfari Þróttara, sagði í viðtali við útvarpsþáttinn Fótbolti.net á X-inu síðasta laugardag að stefnan sé að fara beint upp úr 3. deild næsta sumar.
Andri tók við stjórn liðsins fyrir tímabilið.
Andri tók við stjórn liðsins fyrir tímabilið.
„Reynsla mín sem þjálfari var engin, ég var aðeins í kringum yngri flokka hjá Fjölni á sínum tíma en ekkert meira en það. Þeir höfðu samband við mig fyrir um ári síðan, við ræddum málin og mér fannst það spennandi sem þeir höfðu upp á að bjóða. Það er metnaður í klúbbnum og ég ákvað að slá til. Þegar menn eru með svona mikinn metnað og áhuga eins og þeir er erfitt að segja nei," segir Andri.
„Þetta er búið að vera mjög krefjandi en gaman. Ég er búinn að vera að vinna í slökkviliðinu og þetta hefur verið krefjandi og ég er með góðan aðstoðarmann í Stebba (Stefán Sæbjörnsson). Þetta hefur gengið vel, hópurinn er frábær og þegar vel gengur er alltaf gaman í fótbolta."
Mikill metnaður er hjá Þrótti Vogum en aðstaða félagsins hefur gengið í gegnum miklar endurbætur síðustu ár og í leikmannahópi liðsins eru ansi mörg þekkt nöfn miðað við neðstu deild.
„Þegar ég tók þetta að mér sá ég strax að við vorum að horfa til þess að fara upp um tvær deildir á tveimur árum. Það er klárlega stefnan hjá mér ef ég held áfram og ég tel að hugsunin hjá félaginu sé sú sama," segir Andri en viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir



