
„Það var gaman að enda á sigri en leiðinlegt að fara frá besta klúbbi í heimi, Þór," sagði Bjarni Guðjón Brynjólfsson leikmaður Þórs eftir sigur liðsins á Grindavík í lokaumferð Lengjudeildarinnar í dag. Bjarni lék sinn síðasta leik fyrir félagið í dag en hann er á leið til Vals.
Lestu um leikinn: Þór 3 - 0 Grindavík
Bjarni Guðjón skoraði og lagði upp í 3-0 sigri í dag.
„Fínt að enda á góðum leik. Tímabilið er búið að vera brekka, nokkrir góðir leikir og margir lélegir. Við sluppum við fall en skellur að komast ekki í umspilið," sagði Bjarni.
„Markmiðið var að vinna og treysta ekki á hin liðin. Drulla okkur í gang og pakka Grindavík saman."
Bjarni Guðjón er spenntur fyrir því að spreyta sig í Bestu deildinni.
„Ég er spenntur, gaman að fá alvöru samkeppni og spila í Bestu deildinni. Það er undir mér komið að standa mig vel," sagði Bjarni.