Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 16. nóvember 2020 14:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Ætlum að hjálpa Vuk að verða virkilega góður í þessari deild"
Vuk Oskar Dimitrijevic.
Vuk Oskar Dimitrijevic.
Mynd: Haukur Gunnarsson
FH kynnti nýtt þjálfarateymi sitt á dögunum en Davíð Þór Viðarsson er aðstoðarþjálfari Eiðs Smára Guðjohnsen og Logi Ólafsson er ráðgjafi í teyminu.

Davíð var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

Hann segist ekki hafa stefnt á að fara í þjálfun á þessum tímapunkti.

„Þegar mér bauðst þetta starf þá fannst mér það spennandi að ég gæti ekki sagt nei við því. Það er mjög spennandi að vinna með Eiði og Loga, Logi er þjálfarinn sem gaf mér tækifæri í efstu deild þegar ég var sautján ára. Hann kemur með hafsjó af reynslu og fróðleik að borðinu," segir Davíð.

Matthías Vilhjálmsson kemur til FH-inga fyrir næsta tímabil.

„Það er þessi hópur sem við vorum með í fyrra og svo bætist Matti við um áramótin. Við höfum mikla trú á því að hann bæti leik liðsins enn frekar," segir Davíð.

Einnig kemur Vuk Oskar Dimitrijevic inn í hópinn hjá FH en þessi 19 ára leikmaður hjálpaði uppeldisfélagi sínu, Leikni, að komast upp í efstu deild. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar.

„Við erum að fá Vuk til liðs við okkur og bindum miklar vonir við það að hann eigi eftir að verða virkilega góður leikmaður í þessari deild. Kannski á það eftir að taka einhvern tíma en við ætlum að sjá til þess og hjálpa honum að verða það," segir Davíð. En er FH að leita að frekari liðsstyrk?

„Við erum mjög ánægðir með hópinn. Nú get ég loksins farið að svara eins og þjálfarar gera alltaf: Ef eitthvað spennandi kemur upp þá munum við að sjálfsögðu gera það. Ég er búinn að bíða lengi eftir að geta sagt þetta!"
Útvarpsþátturinn - Þjálfaraskipti hjá Íslandi og Pepsi Max tíðindi
Athugasemdir
banner
banner