Rashford langar til Barcelona - City búið að finna Belga fyrir De Bruyne - Kounde til Chelsea - Diaz til Sádí Arabíu eða Barcelona
banner
   fös 17. janúar 2025 14:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Logi stígur einstakt skref - „Leist mjög vel á það sem ég sá"
Logi Hrafn Róbertsson.
Logi Hrafn Róbertsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi gekk í raðir Istra í Króatíu.
Logi gekk í raðir Istra í Króatíu.
Mynd: Istra
Í leik með U21 landsliðinu.
Í leik með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi hafði verið í FH frá fimm ára aldri.
Logi hafði verið í FH frá fimm ára aldri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er leiðtogi þrátt fyrir ungan aldri.
Er leiðtogi þrátt fyrir ungan aldri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er undir mér komið hvað ég fæ að spila mikið. Ég þarf að standa mig vel og leggja hart að mér'
'Það er undir mér komið hvað ég fæ að spila mikið. Ég þarf að standa mig vel og leggja hart að mér'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég ætla að byrja á því að koma mér inn í hlutina hérna, fá að spila og vinna út frá því," segir Logi Hrafn Róbertsson sem gekk á dögunum í raðir Istra. Hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við félagið sem leikur í efstu deild í Króatíu.

Logi Hrafn fór til Króatíu á frjálsri sölu eftir að samningur hans við FH rann út eftir síðustu leiktíð, en Logi er 20 ára gamall og er hluti af U21 landsliði Íslands. Istra greiðir fullar uppeldisbætur til FH eftir að hafa verið í góðum samskiptum við félagið síðan í júlí.

„Þeir byrjuðu að heyra í mér síðasta sumar. Ég skoðaði það þá en var fókuseraður á að klára tímabilið með FH. Ég kláraði tímabilið og þeir héldu svo áfram að hafa samband við mig. Þeir buðu mér út að skoða aðstæður og ég fór í byrjun desember í fjögurra daga ferð með pabba að skoða þetta. Mér leist mjög vel á það sem ég sá og ákvað að taka slaginn," segir Logi en hvernig kom það til að félag í efstu deild í Króatíu var að horfa til Íslands? Það er ekki mjög algengt, í raun man undirritaður ekki að það hafi gerst að leikmaður fari úr Bestu deildinni í króatísku úrvalsdeildina. Það hafa ekki margir Íslendingar leikið í Króatíu.

„Ég veit ekki alveg hvernig þetta var. Ég man bara eftir því að hafa fengið skilaboð á Instagram frá manni sem vinnur fyrir félagið. Hann var þá að biðja um að fá að ræða við umboðsmanninn minn. Ég veit ekki alveg hvernig ég komst á blað hjá þeim, en það er alveg áhugavert."

Líklegt verður að teljast að U21 landsliðið hafi eitthvað spilað inn í, það er góður gluggi.

Fyrstu skrefin í atvinnumennsku
Logi er núna að koma sér fyrir í Króatíu og er að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku.

„Þetta er kannski ekki eins og Dinamo Zagreb eða Hadjuk, sem eru stærstu félögin í Króatíu. Ég myndi segja að það sé svona fjölskyldustemning hérna. Það eru allir mjög vinalegir og tilbúnir að hjálpa manni. Það er fínasta mæting á leiki og mjög gott umhverfi," segir Logi.

„Þetta er mjög skemmtilegt. Þetta eru fyrstu skrefin í atvinnumennsku og það tekur smá tíma að venjast því að spila fótbolta og gera ekkert annað. Ég er að fara að fá íbúðina mína á eftir og mun þá geta komið mér almennilega fyrir. Svo heldur maður bara áfram."

Mikill túristastaður
Logi ákvað að taka stökkið til Króatíu en hann fór einn út til Istra. Hann segir borgina afar fallega og mikið til að skoða.

„Ég er bara einn hérna úti. Mamma og pabbi eru bara heima. Þetta er mjög rólegt. Maður getur einbeitt sér að æfingum og að jafna sig á milli þeirra," segir Logi.

„Það er mjög góð enskukunnátta hérna. Það virðast allir tala ensku og það hafa allir tekið vel á móti mér. Það eru allir mjög vinalegir. Ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu."

„Þetta er mikill túristastaður og það fyllist allt hér á sumrin af fólki alls staðar frá í heiminum. Það eru mjög fallegar strendur og nóg hér að gera. Nóg að skoða."

Fyrsti leikurinn á móti Dinamo Zagreb
Það styttist í fyrsta leik í króatísku deildinni eftir jólafrí en Istra mætir þá Dinamo Zagreb, sem er stærsta félag Króatíu.

„Fyrsti alvöru leikurinn verður á móti Dinamo Zagreb. Það verður geggjað að spila á móti svona hörkuliði í fyrsta leik fyrir framan fullt af fólki. Það verður gaman að spila á móti svona góðum leikmönnum eins og eru í Dinamo. Það verður frábær upplifun," segir Logi.

„Þetta er góð deild og það mun taka einhvern tíma fyrir mig að komast almennilega inn í þetta. Það eru líka breyttar áherslur frá þjálfaranum og ég er að reyna að koma mér inn í kerfið og hvernig hann vill spila. Það er spennandi."

Erfitt að fara frá FH
Logi ólst upp hjá FH og steig þar sín fyrstu skref í meistaraflokki. Hann segir að það hafi verið erfitt að kveðja uppeldisfélagið en þetta hafi verið rétti tímapunkturinn.

„Þetta var erfið ákvörðun. Ég er búinn að spila í fjögur ár í meistaraflokki með FH og hafði verið hjá félaginu frá fimm ára aldri. Það var leiðinlegt að þurfa að kveðja FH en mér fannst þetta rétti tímapunkturinn fyrir mig til að taka næsta skref og þróa leik minn einhver staðar annars staðar."

Einhver uppáhalds minning úr FH?

„Það er örugglega bara fyrsti leikurinn minn. Það var gríðarlega mikil viðurkenning að fá að koma inn á. Ég var svo ungur og þakklátur að fá tækifærið þá. Það gerði mikið fyrir mig upp á sjálfstraust og hvatningu að gera," segir Logi og bætir við:

„Ég mun að sjálfsögðu fylgjast með FH áfram, ég mun alltaf gera það. Þegar ég kem heim í sumarfrí verður maður mættur upp í stúku."

Þá er tekið eftir manni
Logi var meðal annars orðaður við sænska félagið Helsingborg í haust en mun leika í króatísku deildinni á nýju ári.

„Það voru einhverjar þreifingar en það náði ekkert lengra. Mér leist rosalega vel á Istra og er glaður að það hafi gengið í gegn," segir þessi fjölhæfi leikmaður.

„Ég held að þetta geti verið góður stökkpallur líka. Ef maður stendur sig vel hér þá er mikið af leikmönnum sem fara til dæmis til Ítalíu eða Þýskalands, Sviss. Það er mikið af félögum að fylgjast með þessari deild. Það eru líka stærri félög hérna eins og Dinamo. Ef maður stendur sig vel, þá er tekið eftir manni."

Undir mér komið
Það er svolítil kúltúrbreyting að fara til Króatíu og þarf Logi að læra nýtt og flókið tungumál.

„Ég hef náð að læra einhver orð en þetta er mjög erfitt tungumál og það mun örugglega taka tíma að læra það. Þetta er mjög frábrugðið íslenskunni, engin líkindi."

Hann stefnir núna á að koma sér inn í hlutina eins og fljótt og hægt er. Hann hefur verið að spila sem sexa í æfingaleikjum en hann getur einnig leyst það að leika sem miðvörður.

„Ég þarf að koma mér inn í þetta og nýta tækifærin sem ég fæ. Það er undir mér komið hvað ég fæ að spila mikið. Ég þarf að standa mig vel og leggja hart að mér," sagði þessi efnilegi leikmaður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner