Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   þri 17. mars 2020 09:35
Elvar Geir Magnússon
Stóri UEFA fundurinn í dag - Hvað verður ákveðið?
Allt bendir til þess að EM alls staðar verði frestað
Fótbolti.net fylgist vel með fundi dagsins.
Fótbolti.net fylgist vel með fundi dagsins.
Mynd: Getty Images
Allt bendir til þess að EM alls staðar verði frestað.
Allt bendir til þess að EM alls staðar verði frestað.
Mynd: Getty Images
Í dag klukkan 12 verður videofundur UEFA með öllum 55 aðildarlöndum sambandsins. Reiknað er með að fundurinn taki um tvær klukkustundir. Áður mun UEFA funda með sambandi evrópskra félagsliða og leikmannasamtökunum.

Rætt verður um stöðu fótboltamóta á vegum UEFA nú þegar heimsfaraldur er í gangi. Fréttir herma að UEFA hafi ákveðið að ekkert annað sé í stöðunni en að fresta Evrópumóti landsliða sem átti að fara fram í tólf borgum í Evrópu í sumar.

Fastlega búist við frestun á EM 2020
Fréttir bárust af því í morgun að UEFA hefði afpantað öll hótelherbergi sem sambandið pantaði í Kaupmannahöfn í sumar vegna mótsins. Þetta þykir sýna að búið sé þegar að ákveða frestun á mótinu.

Talið er að EM verði fært aftur um eitt ár en það mun skapa aukið svigrúm fyrir deildakeppnir Evrópu að ná að klárast.

Mun EM kvenna færast?
Ef EM karla verður fært aftur um eitt ár gæti það mögulega haft áhrif á EM kvenna sem á að fara fram á Englandi á næsta ári. Möguleiki er á að það mót fari fram 2022.

Þá er óljóst hvaða áhrif frestun EM karla hefur á Þjóðadeildina og lokakeppni Evrópumóts U21-landsliða.

Hvað verður um Meistaradeildina og Evrópudeildina?
Þetta er flóknara mál en að færa EM. Mikið óvissuástand ríkir í heiminum og verið að setja takmörkun á ferðalög. Í umræðunni er að breyta 8-liða úrslitum og undanúrslitum í eins leiks einvígi. Þá er hugmynd að undanúrslit og úrslit verði spiluð í sömu borginni yfir eina langa helgi.

Ólíklegt er að lokaákvörðun um þessar keppnir verði tekin í dag en þar verði lagð fram mögulegar áætlanir.

Hvað verður um ensku úrvalsdeildina?
Já og aðrar stórar deildakeppnir í löndunum? Frestun á EM myndi búa til aukið svigrúm til að þær deildir geti verið kláraðar. Hugmynd er að leika deildirnar um leið og mögulegt er og reyna að framlengja tímabundið samninga við þá leikmenn sem eru að renna út.

Karren Brady, varaformaður West Ham, lýsti því yfir að hún vildi að tímabilið yrði dæmt ógilt. Sú hugmynd hennar fékk vondar viðtökur og enska úrvalsdeildin er ákveðin í að fá fram niðurstöðu í tímabilið.

Fundur UEFA í dag mun þó að litlu leyti snúast um deildakeppnir Evrópu og engar stórar ákvarðanir væntanlega teknar varðandi þær. Fundurinn snýst að mestu um EM alls staðar, Meistaradeildina og Evrópudeildina.
Athugasemdir
banner
banner