Þýski leikmaðurinn Vitaly Janelt, sem er á mála hjá Brentford á Englandi, hefur öðlast bosnískan ríkisborgararétt og valið að leika með landsliðinu en þetta kemur fram í tilkynningu frá fótboltasambandi Bosníu í dag.
Janelt er 25 ára gamall miðjumaður sem á tæplega 200 leiki að baki með Brentford.
Á síðasta tímabili var hann valinn besti leikmaður tímabilsins hjá Brentford en það hefur ekki fengist pláss fyrir hann í þýska landsliðshópnum.
Miðjumaðurinn varð Evrópumeistari með U21 árs landsliði Þjóðverja árið 2021 og á í heildina yfir 30 landsleiki með yngri landsliðunum.
Sama ár skoðaði Hansi Flick það að velja hann í A-landsliðið en það varð aldrei neitt úr því.
Janelt hefur nú gefist upp á draumnum að fá að leika með Þjóðverjum í framtíðinni, en hann hefur nú nælt sér í bosnískan ríkisborgararétt í gegnum eiginkonuna.
Bosníska fótboltasambandið hefur staðfest þessi tíðindi og er ferlið nú komið af stað hjá FIFA um að fá skiptin í gegn.
Þetta yrði mikill fengur fyrir bosníska landsliðið sem undirbýr sig nú fyrir undankeppni HM.
Athugasemdir