Man Utd og Liverpool vilja Cherki - Arsenal skoðar Coman - Tottenham og Man Utd vilja markvörð Frankfurt - Chelsea reyndi við Van Dijk - Garnacho...
   fim 17. apríl 2025 15:31
Ívan Guðjón Baldursson
Inter í viðræðum við Marseille - Bayern fylgist með
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Brasilíski kantmaðurinn Luis Henrique er eftirsóttur af tveimur stórveldum evrópska fótboltans, Inter og FC Bayern sem mættust í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.

Inter hafði betur þar og leiðir einnig kapphlaupið um Henrique, sem er leikmaður Marseille í Frakklandi.

Henrique er 23 ára gamall og spilar sem vinstri kantmaður að upplagi en getur einnig leikið hægra megin.

Á yfirstandandi tímabili hefur Henrique komið að 17 mörkum í 31 leik með Marseille í frönsku deildinni og bikarnum.

Inter er komið langt í viðræðum við Henrique um persónuleg kjör og er einnig í viðræðum við Marseille um kaup á leikmanninum. Marseille vill 30 til 35 milljónir evra en Inter er tilbúið til að gera 20 til 25 milljóna evru tilboð.

Bayern hefur einnig áhuga á leikmanninum og fylgist grannt með gangi mála.

Henrique var keyptur til Marseille frá Botafogo fyrir tæplega fimm árum síðan og kostaði um 8 milljónir evra.

Henrique býr ekki yfir mikilli reynslu sem vængbakvörður en verður líklegast notaður í því hlutverki gangi hann til liðs við Inter, þar sem Simone Inzaghi notar 3-5-2 leikkerfið sitt sem hefur skilað miklum árangri.

Nicola Zalewski, Denzel Dumfries, Federico Dimarco og Carlos Augusto eru yfirleitt notaðir sem vængbakverðir í kerfinu hjá Inzaghi en Benjamin Pavard og Matteo Darmian geta einnig spilað þar.
Athugasemdir