,,Ég get ekki beðið eftir að byrja," sagði Andri Steinn Birgisson við Fótbolta.net í dag en hann er orðinn leikmaður Víkings, kom frá Leikni.
,,Ég heyrði í þeim fyrir tveimur vikum og þetta tók fljótt af. Mér lýst mjög vel á það sem er verið að gera og held að það sé stefna allra að skjóta liðinu þar sem það á heima, í Pepsi-deildinni."
Andri Steinn spilaði með Keflavík í fyrrasumar en fór svo í Leikni í sumar. Hann skoðaði líka þá möguleika að spila í efstu deild en valdi að fara í 1. deildarlið Víkings.
,,Það var alveg á borðinu að fara í efstu deild og ég skoðaði það en svo var það Víkingur sem stóð uppi og ég er mjög ánægður með það. Ég tel að það sé metnaður í klúbbnum, þeir eru að fá Ingvar til baka og ég tel að það sé ein stefna og hún er að fara upp.
Hjá Víkingum spilar Andri Steinn undir stjórn Ólafs Þórðarsonar. Við spurðum hann að lokum hvort þeir þekktust.
,,Nei ekkert þannig, nema að hann ætlaði að fótbrjóta mig þegar ég var 15 ára. Þá sólaði ég hann eitthvað illa og hann sagði að ef ég myndi sóla hann aftur þá myndi hann negla mig niður," sagði Andri Steinn.
,,Ég vona að hann mæti á æfingu og ég fái að taka smá öxl í öxl við kallinn og sjá hversu hraustur hann er í dag. Ég var pínu smeykur þegar ég var 15 ára, ég viðurkenni það."
Athugasemdir