Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var að vonum sáttur með 2-1 sigur liðsins á Val í Reykjavíkurmótinu í kvöld
Bjarni Guðjónsson kom KR yfir með marki úr vítaspyrnu áður en Þorsteinn Már Ragnarsson bætti við öðru marki. Matarr Jobe minnkaði muninn þegar um fimmtán mínútur voru eftir en lengra komust Valsarar ekki.
,,Ég er mjög ánægður. Við ætluðum að mæta til leiks til þess að sigra, það tókst og menn þurftu að leggja mikið á sig og eru í misjafnri æfingu og höfðum ekkert rosalega marga leikmenn til að velja úr, en notuðum mannskapinn í dag," sagði Rúnar við Fótbolta.net.
,,Þetta var svona allt í lagi, hófkenndur, kannski ekki mikið um hratt spil. Þetta var jafn leikur, eftir að við komumst í 2-0 þá eigum við þarna tíu til fimmtán mínútna góðan kafla þar sem við hefðum getað gert þriðja markið og héldum boltanum vel, en um leið og þeir komast inn í leikinn með þessu marki sem þeir gerðu þá varð þetta basl í restina."
,,Við ógnuðum markinu þeirra ekkert sérstaklega mikið í restina og þeir kannski ekkert okkur heldur, en svona heilt yfir vorum við betri."
,,Ég æsti mig þarna í restina af leiknum, þar sem ég æsti mig í dómarann og sagði einhver ófögur orð, þetta er bara hluti af þessu. Maður er fljótur upp, en maður er jafn fljótur niður og svo ræddum við Maggi þetta og dómararnir og fórum yfir þetta, ekkert fyrir illu, við viljum bara laga allt."
,,Við Maggi erum góðir félagar og höfum oft rifist áður, en við erum samt alltaf jafn góðir vinir fyrir það."
KR var án margra leikmanna í kvöld, en hann segir að liðið þurfi að bæta við sig varnarmönnum og að leitin að rétta manninum sé hafin.
,,Við munum aðeins skoða í kringum okkur, en ekkert vaða út í neitt svona í dag eða á morgun. Við erum alltaf með augun opin og þurfum helst að styrkja okkur í vörninni og erum aðallega að leita þar."
,,Ég get sagt þér fullt af nöfnum, en þegar ekkert er öruggt og ekkert á borðinu fyrir framan mann þá er voðalega leiðinlegt að tala um hlutina. Það eru fullt af mönnum í boði, en maður verður líka að reyna að velja rétt og velja eitthvað sem passar í okkar leik og okkar lið. Það er alltaf spurning hvað er best í stöðunni og við verðum að meta þetta vel áður en við tökum ákvörðun," sagði Rúnar að lokum.
Athugasemdir
























