Amad Diallo er gríðarlega efnilegur leikmaður gekk nýverið í raðir Manchester United frá Atalanta á Ítalíu.
Hann er fæddur á Fílabeinsströndinni en var smyglað til Ítalíu ásamt bróður sínum, Hamed Junior Traorè, fyrir fimm árum síðan. Samkvæmt frétt frá The Times þá voru fimm aðilar handteknir á síðasta ári fyrir að smygla fimm fótboltamönnum frá Fílabeinsströndinni til Ítalíu með fölsuðum skjölum.
Telegraph fjallar um málið en þar segir að Diallo hafi sest að í úthverfi Parma þar sem hann spilaði fyrst um sinn með Boca Barco, félagi þar í borg.
Það var fljótt ljóst að það var mikið spunnið í þennan dreng. Hann var feiminn og talaði ekki mikið, en það var á fótboltavellinum þar sem hann tjáði sig.
„Amad var alltaf sérstakur þegar boltinn var við fætur hans," segir Enzo Guerri, forseti Boca Barco.
Stærri félög fóru strax að bera kvíurnar í Diallo og það er saga um það að útsendari Roma hafi viljað semja við hann eftir að hafa horft á hann spila fótbolta í fimm mínútur. Hann fór á reynslu til Juventus og 15 mínútur eftir hans fyrstu æfingu þar, þá fékk Boca Barco símtal frá Ítalíumeisturum um að þeir vildu semja við hann.
Hann gekk hins vegar í raðir Atalanta þar sem hann blómstraði í ungingaliðunum.
„Þegar hann var á reynslu hjá Atalanta var hann látinn spila með strákum sem voru að minnsta kosti árinu eldri. Á fyrsta ári hans hjá Atalanta var hann hluti af liðinu sem vann svæðismótið og var hann markahæstur. Hann fór svo að spila á hærra stigi og varð Ítalíumeistari," sagði Guerri.
Diallo gæti kostað Man Utd allt að 37 milljónir punda, en hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í 1-1 jafntefli við AC Milan í Evrópudeildinni í síðustu viku. United mætir AC Milan í seinni leik liðanna í kvöld og verður gaman að sjá hvort þessi hæfileikaríki leikmaður fái tækifæri.
„Hann er að leggja mikið á sig. Hann veit að hann á mikið eftir ólært," sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, um hann en það er miklar væntingar bornar til hans fyrir framtíðina.
Athugasemdir