Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   þri 18. júní 2024 11:34
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jóhann Berg áfram hjá Burnley eftir allt saman?
Jóhann Berg Guðmundsson á Wembley.
Jóhann Berg Guðmundsson á Wembley.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson ákvað í lok tímabilsins á Englandi að framlengja ekki samning sinn við enska félagið Burnley. Hann var með ákvæði í samningi sínum sem hefði gefið honum aukaár.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru þó líkur á að hann verði áfram hjá félaginu eftir allt saman og viðræður hafa átt sér stað. Vincent Kompany, sem stýrði Burnley síðustu tvö ár, er tekinn við Bayern Munchen.

Jóhann Berg var ekki sáttur við takmarkaðar mínútur í vetur hjá liði Burnley sem olli vonbrigðum í úrvalsdeildinni og féll nokkuð sannfærandi aftur niður í Championship. Flestir töldu að Kompany yrði áfram hjá Burnely en eftir brotthvarf hans hefur landslagið breyst og opnaði möguleikann á áframhaldandi veru Jóa hjá félaginu.

Jóhann Berg er 33 ára miðjumaður og kom hann til Burnley árið 2016 eftir tvö tímabil með Charlton. Landsliðsmanninum líður vel á Englandi, búinn að koma sér mjög vel og fjölskyldan ánægð. Ef að Burnley vill halda honum og nýr stjóri vill nýta hans krafta, af hverju ætti hann þá ekki að vilja vera áfram?

Viktor Unnar Illugason, góður vinur Jóhanns Bergs, var gestur í ChessAfterDark um helgina. Hann sagði að í sínum draumaheimi yrði Jói áfram hjá Burnley og næði að spila aftur með liðinu í úrvalsdeildinni áður en skórnir færu upp í hillu.

Burnley á eftir að ráða eftirmann Kompany og er Scott Parker, fyrrum stjóri Fulham, talinn líklegasti kosturinn sem stendur. Á eftir honum koma þeir Liam Rosenior, Frank Lampard, Craig Bellamy og Ruud van Nistelrooy.
Athugasemdir
banner