Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 18. júlí 2024 08:51
Elvar Geir Magnússon
Lloris um rasistasönginn: Sigurvíma engin afsökun
Lloris er í dag leikmaður Los Angeles FC í Bandaríkjunum.
Lloris er í dag leikmaður Los Angeles FC í Bandaríkjunum.
Mynd: Getty Images
Enzo Fernandez.
Enzo Fernandez.
Mynd: Getty Images
„Þessi söngur er árás á franskan almenning," segir Hugo Lloris fyrrum landsliðsfyrirliði Frakklands um rasistasönginn sem argentínskir landsliðsmenn sungu.

Spjótin hafa beinst að Enzo Fernandez, miðjumanni Chelsea, en hann birti myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann söng umrætt lag ásamt liðsfélögum sínum í landsliðinu.

Söngurinn er talinn innihalda 'rasisma' og 'mismunun' en í texta hans er talað neikvætt um svarta leikmenn franska landsliðsins. Stór hluti franska landsliðsins eru börn innflytjenda.

FIFA er með málið til rannsóknar en myndbandið var tekið í liðsrútunni þegar Argentína var að fagna eftir 1-0 sigur gegn Kólumbíu í úrslitaleik Copa America.

„Ég er á móti mismunun að öllu tagi og biðst afsökunar á að hafa misst stjórn á mér í sigurvímunni eftir að við unnum Copa America," sagði Enzo í afsökunarbeiðni sem hann gaf frá sér í gær.

Lloris, sem var fyrirliði Frakklands þegar liðið vann HM 2018, er hneykslaður á hegðun argentínsku landsliðsmannana og gefur lítið fyrir útskýringar Enzo.

„Það er engin afsökun að þetta hafi verið hugsunarleysi í sigurvímu því þú vannst stóran titil. Þegar þú ert sigurvegari er enn meiri krafa á að þú sýnir ábyrgð," segir Lloris.

„Maður vill ekki heyra eða sjá svona hluti í fótboltanum. Við stöndum öll saman gegn mismunun og kynþáttaníði. Ég vona og held að þetta hafi verið mistök sem þeir muni læra af."

„Argentínska landsliðið er heimsmeistari, það er andlit fótboltans í Suður-Ameríku og heiminum. Þeir eru fyrirmyndir annarra, ekki síst barna. Þetta var hreinlega árás á franskan almenning, sérstaklega þá Frakka sem eru af afrískum uppruna."
Athugasemdir
banner
banner
banner