Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 19. febrúar 2023 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Ekki stendur til að reka Potter - „Ég er ekki vandamálið"
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er ekki að íhuga að reka Graham Potter úr starfi. Þetta segir enski blaðamaðurinn Matt Law.

Potter tók við Chelsea eftir að Thomas Tuchel var rekinn snemma á tímabilinu.

Það byrjaði allt frábærlega og tapaði liðið ekki í fyrstu níu leikjunum undir stjórn Potter en eftir það fór allt niður á við.

Liðið hefur aðeins unnið þrjá keppnisleiki af síðustu fimmtán en liðið fékk óvæntan skell gegn botnliði Southampton á Stamford Bridge í gær. Leikurinn tapaðist 1-0 og er Chelsea í 10. sæti með 31 stig, tíu stigum frá Meistaradeildarsæti.

Samkvæmt Matt Law á Telegraph er stjórn Chelsea ekki að íhuga það að reka Potter. Hann fær stuðning stjórnarinnar en Potter segir sjálfur að hann sé ekki vandamál félagsins.

„Ég er viss um að það sé fólk þarna úti sem heldur að ég sé vandamálið, það er alveg klárt. Ég held að það sé rangt hjá þeim en ég er ekki það hrokafullur að segja að skoðanir þeirra séu ekki þess virði að spá í. Ég skil alla gagnrýni eftir 1-0 tap á heimavelli en við erum að ganga í gegnum erfiðan kafla og það hafa verið margar áskoranir þegar það kemur að því að aðlaga ungu leikmennina að ensku úrvalsdeildinni. Það getur reynst erfitt á meðan úrslitin eru ekki að falla með manni en þannig er það,“ sagði Potter við fjölmiðla.

Potter var heldur seinn er hann mætti í viðtöl en það voru einhverjar samsæriskenningar um það að Chelsea væri búið að reka hann, en svo er ekki.

„Það er ekkert samsæri. Ég get ekki gefið þér það en það er bara mikið af fjölmiðlum og svo voru kollegar mínir í viðtölum á undan mér. Ég tala alltaf við ykkur,“ sagði Potter.
Athugasemdir
banner
banner
banner