Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 19. ágúst 2019 21:08
Arnar Helgi Magnússon
Pepsi Max-deildin: Magnað sex marka jafntefli á Kópavogsvelli
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Breiðablik 3 - 3 Valur
0-1 Birkir Már Sævarsson ('14 )
0-2 Patrick Pedersen ('19 )
1-2 Brynjólfur Darri Willumsson ('37 )
2-2 Andri Rafn Yeoman ('41 )
3-2 Brynjólfur Darri Willumsson ('61 )
3-3 Haukur Páll Sigurðsson ('69 )

Fyrri hálfleikur var ansi fjörugur og það var tæplega stundarfjórðungur liðinn af leiknum þegar Valsmenn tóku forystuna.

Það var ekkert venjulegt mark, heldur mark af dýrustu gerð. Baldvin Már Borgarsson textalýsti leiknum og hann hafði þetta að segja um fyrsta mark Vals:

„VAAAAÁÁÁÁ - STURLAÐ MARK!"
„Kristinn Freyr fær boltann á miðjunni og tekur gjörsamlega geggjaðan snúning og skilur miðjumenn Blika eftir, snuddar boltann innanfótar í gegn á Sigga Lár sem keyrir að markinu og neglir boltanum svo fyrir þar sem Birkir Már mætir á svona 47 km/h og setur boltann í netið, gjörsamlega sturluð sókn hjá Val!"

„Hvet fólk til að horfa á Pepsi mörkin eða eitthvað til að sjá þennan snúning hjá Kidda!"


Patrick Pedersen kom Val í 2-0 einungis fimm mínútum síðar. Pedersen fékk þá boltann frá Andra Adolphssyni, var einn á móti Gunnleifi, og setti boltann vandræðalaust í markið. Brekka fyrir Blika!

Heimamenn gáfust ekki upp. Brynjólfur Darri Willumsson minnkaði muninn þegar hann setti boltann í netið af stuttu færi eftir að boltinn hafði dottið fyrir fætur hans inni í teig Valsmannna.

Blikar náðu að jafna leikinn fyrir hálfleik. Hannes Þór kýldi þá fyrirgjöf Guðjóns Péturs út í teiginn en ekki langt, Andri tók á móti boltanum og negldi honum upp í samskeytin. Gjörsamlega sturlaður fyrri hálfleikur, staðan 2-2 þegar Ívar Orri flautaði til hálfleiks.


Fyrri hálfleikur fór rólega af stað en það var mikill hiti í mönnum og leikmenn hikuðu ekki við það að láta hvorn annan heyra það.

Brynjólfur Darri Willumsson kom Blikum yfir eftir klukkutíma leik eftir algjöran klaufagang í vörn Vals. Eftir mikið klafs í teignum var Brynjólfur fljótur að átta sig og potaði boltanum í netið, aftur af stuttu færi. Hannes var lagstur og náði ekki til boltans.

Blikar tóku þá öll völd á vellinum og það er með ólíkindum að liðið hafi ekki náð að skora fjórða markið. Valur refsaði.

Haukur Páll skallaði boltann þá í netið eftir fyrirgjöf frá Birki Má Sævarssyni. Staðan orðin 3-3 í gjörsamlega ævintýralegum fótboltaleik.

Patrick Pedersen þurfti að fara meiddur af velli undir lok leiks en Emil Lyng kom inn á í hans stað. Möguleg tognun, áfall fyrir Val ef svo er.

Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós en það er óhætt að segja að áhorfendur á Kópavogsvelli hafi fengið allt fyrir peninginn í kvöld. Blikar fara upp í þrjátíu stig og eru nú níu stigum frá KR. Valur er í sjötta sæti með 24 stig.


Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner