„Mér líður bara mjög vel, er í skýjunum með að þetta hafi gengið upp á endanum," segir Júlíus Magnússon, sem samdi á dögunum við Elfsborg í Svíþjóð, í samtali við Fótbolta.net.
„Þetta tók smá tíma. Þeir sýndu fyrst áhuga um miðjan nóvember. Þá áttum við einhverja leiki eftir. Eftir að hafa fylgst með félaginu síðustu ár - þar sem þeir hafa verið með Íslendinga í sínum röðum - þá var maður spenntur þegar þeir sýndu fyrst áhuga."
„Þetta tók smá tíma. Þeir sýndu fyrst áhuga um miðjan nóvember. Þá áttum við einhverja leiki eftir. Eftir að hafa fylgst með félaginu síðustu ár - þar sem þeir hafa verið með Íslendinga í sínum röðum - þá var maður spenntur þegar þeir sýndu fyrst áhuga."
Júlíus kemur til Elfsborg eftir að hafa spilað vel með Fredrikstad í Noregi síðustu árin. Hann skrifar undir samning við sænska félagið sem gildir til 2029.
Langur aðdragandi
Það var nokkuð langur aðdragandi að skiptum eins og miðjumaðurinn öflugi lýsir. Elfsborg byrjaði að sýna áhuga um miðjan nóvember og gengu skiptin upp á endanum.
„Í nóvember og desember var verið að finna út hver verðmiðinn væri. Maður vildi ekki setja of mikið púður í þetta þegar maður átti bikarúrslitaleik eftir og var að berjast um að komast í Evrópu í deildinni. Svo reyndu þeir aðeins að þreifa á þessu í desember og upp úr nýju ári settu þeir allt í gang. Þá fann ég fyrir því hversu mikill áhuginn var og hversu mikið þeir vildu fá mig. Það var mjög aðlaðandi fyrir mig sem leikmann að finna fyrir því trausti," segir Júlíus.
Elfsborg er eitt stærsta félagið í Svíþjóð og það eru miklar væntingar gerðar þar.
„Maður finnur alveg um leið að það eru miklar væntingar hjá Elfsborg, upp á allt að gera. Mér fannst það líka mjög spennandi, að vera partur af svoleiðis vegferð. Svíþjóð er aðeins öðruvísi deild og maður er kominn í öðruvísi félag sem hefur verið stabílt í efstu deild og verið í toppbaráttu. Það er verið að gera mikið gott í félaginu og maður sér það til dæmis líka á sölum á leikmönnum og svoleiðis. Þetta er mjög heillandi félag og það eru miklar væntingar frá öllum í kringum það, miklar kröfur gerðar á að ná úrslitum og að spila vel. Mig langaði að vera partur af því."
Einn dýrasti leikmaður í sögu félagsins
Kaupverðið er um 1 milljón evra og gæti síðar meir hækkað upp í 1,5 milljónir evra. Allt í allt gætu þetta orðið um 225 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt Transfermarkt hefur einungis einn kostað meira en það er Anders Svensson sem Elfsborg keypti frá Southampton fyrir tæpum 20 árum.
„Ég held að það sé mikið hrós fyrir mig sjálfan að annað félag í Skandinavíu vilji svona mikið fá mig og sé tilbúið að setja svona mikinn pening í mann," segir Júlíus um verðmiðann.
„Það er greinilegt að þeir vilji mína týpu af leikmanni sem gerir þetta spennandi fyrir mig. Þetta er aðallega stórt hrós og ég er stoltur að hafa verið keyptur á svona mikinn pening. Það gerir það að verkum að það setji meiri pressu á mig að gera vel, heldur en að það sé pressa frá öðrum. Ég set bara þá pressu á mig sjálfan og reyni að standast hana."
Íslendingahefð hjá félaginu
Hjá Elfsborg er Eggert Aron Guðmundsson sem keyptur var frá Stjörnunni fyrir ári síðan. Það er Íslendingahefð hjá félaginu á síðustu árum hafa Andri Fannar Baldursson, Hákon Rafn Valdimarsson og Sveinn Aron Guðjohnsen einnig leikið með félaginu.
„Maður heyrir að allir leikmennirnir hérna hafi spilað með síðustu Íslendingunum sem hafa verið hjá félaginu. Það er klárlega hefð í félaginu að leita af Íslendingum og það gerir þetta enn meira heillandi, að félagið horfi til íslenskra leikmanna og vilji það hugarfar sem ég tel mig vissulega vera með. Það er skemmtilegt að komast inn í svona umhverfi," segir Júlíus.
Líklega er Hákon Rafn einhver bestu kaup í sögu Elfsborg en hann var fenginn frá Gróttu og nokkrum árum síðar seldur til Brentford, sem er í ensku úrvalsdeildinni. Salan á Hákoni er sú fjórða stærsta í sögu Elfsborg.
Erfitt að fara frá Fredrikstad
Júlíus viðurkennir að það hafi verið erfitt að fara frá Fredrikstad þar sem hann var orðinn fyrirliði og algjör lykilmaður.
„Það var mjög erfitt að fara frá Fredrikstad. Maður var búinn að vinna sér inn ákveðinn stað í félaginu eftir að hafa byrjað í næst efstu deild og komist upp um deild, og svo unnið bikarinn," segir miðjumaðurinn en hans síðasta verk með félaginu var að lyfta norska bikarnum.
Hann segist hafa yfirgefið félagið á góðum nótum og er hann þakklátur fyrir það.
„Þegar maður er fyrirliði liðsins þá vill maður ekki fara á slæmum nótum, fara í eitthvað stríð eða svoleiðis. Ég er mjög ánægður að það hafi ekki neitt svoleiðis gerst. Ég var aldrei að ýta of mikið á félagið að ég vildi fara en ég sagði þeim frá byrjun að ég myndi vilja skoða þetta ef þeir myndu gera gott tilboð. Ég vildi skoða mína möguleika. Ég þurfti að átta mig á því hvað ég væri orðinn gamall líka og ekki horfa of mikið inn í þægindarrammann. Ég var kominn á mjög góðan stað í Fredrikstad og búinn að vinna mér inn ákveðna virðingu. Upp á það að gera var mjög erfitt að fara en þetta var klárlega eitthvað sem ég vildi skoða."
„Það var spennandi að skoða eitthvað nýtt eftir allt sem ég hafði áorkað með Fredrikstad. En það hafði ekkert með Fredrikstad að gera að ég vildi fara, það hafði meira með mig persónulega að gera."
Flestir stuðningsmenn sýnt þakklæti
Undirritaður hafði tekið eftir því á samfélagsmiðlum að flestir stuðningsmenn Fredrikstad væru auðvitað leiðir að Júlíus væri að fara, en á sama tíma væru þeir þakklátir fyrir allt sem hann hafði gert fyrir félagið.
„Það eru flestir stuðningsmenn Fredrikstad sem hafa sýnt mér rosalega mikinn stuðning. Það er meira þakklæti frá þeim en að þeir séu að kalla mig svikara og eitthvað svoleiðis. Það eru einhverjir fáeinir sem eru að gera það," segir miðjumaðurinn.
„Það eru flestir sem eru virkilega ánægðir fyrir mína hönd og með mín störf fyrir félagið. Það gerir þetta þægilegra fyrir mig, maður var ekki með neitt samviskubit eða eitthvað svoleiðis. Maður var ánægður með ákvörðunina fyrir og eftir undirskrift."
Frábær skipti
Júlíus gekk í raðir Fredrikstad frá Víkingi Reykjavík í febrúar 2023. Hann segist hafa tekið ákveðna áhættu með þeim skiptum en það hafi allt gengið eins og í sögu.
„Eftir á að hyggja gekk þetta frábærlega vel og það gekk nánast allt upp eftir að maður fór frá Víkingi. Maður var að taka ákveðna áhættu með því að fara í næst efstu deild í Noregi. Sú deild hefur svolítið gleypt í sig íslenska leikmenn sem hafa farið þangað úr Bestu deildinni. Menn hafa svolítið staldrað þar vegna þess að lið eiga erfitt með að komast upp," segir Júlli.
„Þegar maður horfir til baka þá gekk þetta nánast fullkomlega fyrir liðið og fyrir mig persónulega. Það gerir mig virkilega þakklátan að maður sé ekki að fara frá brotnu skipi. Ég er núna tilbúinn að setja mér ný markmið í nýju félagi."
Hann spilaði alla leiki, allar mínútur á síðasta tímabili og vann sig upp á næsta stig. Hann missti ekki af einni æfingu sem er í raun ótrúlegt. Hvernig fórstu að því?
„Ég held að þetta hafi verið röð atvika sem hafa gengið upp. Maður hélst meiðslalaus og ég var í góðu formi. Auðvitað var þetta líka traust frá þjálfaranum. Oft eru leikir ansi tæpir og þá hefði verið hægt að taka mig út af og sóknarmann inn á. Svo var ég líka ekki með mörg gul spjöld, held að ég hafi fengið tvö gul spjöld í 30 leikjum sem er svolítið einstakt og eiginlega heppni fyrir mína stöðu á vellinum. Ég er stoltur að hafa náð þessu, svolítið magnað afrek. Vonandi verð ég áfram heppinn með meiðsli og annað," segir Júlíus og ítrekar hversu mikilvægt það er að hugsa vel um sjálfan sig.
Ætlar að vinna sér inn virðingu í Svíþjóð
Júlíus er 26 ára miðjumaður sem tekur núna næsta skref á ferlinum. Hann vonast til að komast enn lengra en tekur eitt skref í einu.
„Ég er að vonast til að vera mjög ánægður í Elfsborg og spila þar í mörg ár. En maður horfir alltaf innst inni aðeins lengra. Auðvitað væri maður til í að prófa alls konar ævintýri í enn stærri deildum en maður verður líka að vera raunsær á hvaða stað maður er."
„Maður verður fyrst að vinna sér inn virðingu hjá félaginu og stuðningsmönnum. Ég þarf að gera mig að nafni í deildinni. Ég hef heyrt að sænska deildin sé öðruvísi Noregur og ég tel hér vera betri einstaklingsgæði en í Noregi. Það gerir þetta enn meiri áskorun," sagði landsliðsmaðurinn að lokum en spennandi verður að fylgjast með honum í Svíþjóð.
Athugasemdir