
Kantmaðurinn efnilegi Ansu Fati hefur verið orðaður við brottför frá Barcelona að undanförnu vegna lítils spiltíma undir stjórn Xavi. Fati hefur komið inn af bekknum í langflestum leikjum Barca á tímabilinu en hann vill fleiri tækifæri með byrjunarliðinu.
Fati er tvítugur og er samningsbundinn Barca til 2027, en félagið hefur möguleika á tveggja ára framlengingu.
Nokkur af stærstu félögum ensku úrvalsdeildarinnar hafa áhuga á Fati og sendu fyrirspurnir á umboðsmanninn hans eftir fregnir um að leikmaðurinn ungi vildi fleiri tækifæri með byrjunarliðinu.
„Ég er samningsbundinn Barcelona til 2027 og vonast til að vera hjá þessu félagi í mörg ár til viðbótar," var allt sem Fati hafði að segja þegar hann var spurður út í áhuga á sér úr enska boltanum.
Fati er talinn vilja vera áfram innan herbúða Barca og er talið afar ólíklegt að spænska stórveldið sé reiðubúið til að selja helsta ungstirnið sitt.
Fati á tvö mörk í sjö A-landsleikjum fyrir Spán og var í landsliðshópnum sem fór til Katar í nóvember.