mán 20. febrúar 2023 17:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Át þann sokk með bestu lyst - Kominn tími á að skila árangri
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hér með miðjumanninum Jorginho.
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hér með miðjumanninum Jorginho.
Mynd: Getty Images
Arsenal er sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Arsenal er sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Mynd: EPA
Mun Arsenal taka meistaratitilinn? Félagið varð síðast meistari árið 2004.
Mun Arsenal taka meistaratitilinn? Félagið varð síðast meistari árið 2004.
Mynd: EPA
„Ég hef sagt það frá því áður en tímabilið hófst að Arsenal ætti að lágmarki í Meistaradeildarsæti núna í vor. Það voru þær kröfur sem ég gerði til Arteta frá byrjun tímabilsins," sagði Jón Kaldal, stuðningsmaður Arsenal, í Enski boltinn hlaðvarpinu í síðustu viku.

Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og hefur verið það mestmegnis á þessu tímabili.

Liðið endaði í fimmta sæti á síðustu leiktíð eftir að hafa misstigið sig á lokasprettinum. Erkifjendur þeirra í Tottenham tóku Meistaradeildarsætið að lokum.

Jón hafði ekki sérlega mikla trú á Mikel Arteta, stjóra Arsenal, fyrir tímabilið en étur þann sokk með mikilli lyst þessa stundina. Hann vill sjá liðið taka titil í lok tímabils, en liðið er að berjast í deildinni og í Evrópudeildinni.

„Mannskapurinn hefur verið keyptur undir hans stjórn og það er búið að gjörbreyta samsetningunni; félagið hefur eytt heilmiklum fjármunum í það. Önnur félög hafa verið í ströggli utan vallar - ákveðið bras - á meðan Arteta er kominn með stöðugleika."

„Á síðasta tímabili var ég ekkert sérstakur stuðningsmaður þess að Arteta yrði ráðinn áfram. Mér fannst of lítil merki þess þá að liðið væri að taka einhverjum framförum. Mér fannst Arteta guggna aftur á þeim tíma sem mestu skipti, eins og hann hafði gert árinu á undan - bæði í Evrópukeppnum og í deildinni. Hvernig liðið endaði síðasta tímabil var hræðilegt. Þeir létu Tottenham hirða sætið af sér, sem var nánast ófyrirgefanlegt."

„Ég þurfti að éta þennan sokk hressilega, en með bestu lyst. Ég læt það samt alltaf fylgja sögunni að ég styð þann stjóra sem er með Arsenal hverju sinni, en mér fannst svona stórt félag ekki eiga efni á því að vera með mann í starfsnámi. Við erum með frábært lið núna, lið sem stuðningsmenn geta tengt við og ég er algjörlega á þeim vagni núna."

Arsenal tók síðast þátt í Meistaradeildinni 2016/17 tímabilið en það eru allar líkur á því að félagið snúi þangað aftur á næstu leiktíð. Það er þó spurning hvort þeir snúi þangað aftur sem enskir meistarar eða ekki.

„Við sáum það gerast nokkur ár í röð hjá Wenger að Arsenal féll úr nánast öllum keppnum febrúar. Hvað gerist núna? Arsenal er í tveimur keppnum núna og það reynir mikið á Arteta. Ég held að það sé svakaleg samstaða í þessum hóp og ég óttast það ekki svakalega að þetta lið muni guggna, en ef það fer þannig þá mun ég setja aftur stórt spurningamerki við Arteta. Hann er greinilega frábær þjálfari en núna þarf hann að skila árangri líka."

„Ég verð auðvitað ósáttur ef liðið tekur ekki titil, en ef Arsenal endar í topp þremur þá erum við á undan áætlun að mörgu leyti. Á sama tíma er þetta einstakt tækifæri til að taka titilinn," sagði Jón en hægt er að hlusta á umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.

Síðastliðin helgi fór vel fyrir Arsenal sem er á toppnum með tveggja stiga forskot og með leik til góða á Manchester City í öðru sæti.
Enski boltinn - Ekki bara tveir hestar, heldur þrír
Athugasemdir
banner