Aston Villa og Man Utd gætu skipst á leikmönnum - Onana falur fyrir 20 milljónir punda - Isak fer ekki frá Newcastle
   sun 20. apríl 2025 17:12
Brynjar Ingi Erluson
Daníel Leó og Kolbeinn skoruðu - Hákon flottur í sigri Lille
Daníel Leó skoraði í mikilvægum sigri SönderjyskE
Daníel Leó skoraði í mikilvægum sigri SönderjyskE
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Þórðar gerði fyrsta mark sitt á þessu tímabili
Kolbeinn Þórðar gerði fyrsta mark sitt á þessu tímabili
Mynd: Guðmundur Svansson
Daníel Leó Grétarsson og Kolbeinn Þórðarson voru báðir á skotskónum og þá lagði Nóel Atli Arnórsson upp mark í Evrópuboltanum í dag.

SönderjyskE vann Álaborg, 3-2, í hörkuleik í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar.

Daníel Leó byrjaði í vörn Sönderjyske á meðan Kristall Máni Ingason byrjaði á bekknum og þá var Nóel Atli á bekknum hjá Álaborg.

Lirim Qamilli skoraði tvö fyrir Sönderjyske í fyrri hálfleiknum, en Nóel kom inn á í byrjun síðari og lagði upp fyrsta mark heimamanna í leiknum.

Sex mínútum síðar gerði Daníel Leó mikilvægt þriðja mark gestanna en nokkrum mínútum áður kom Kristall Máni inn af bekknum.

Álaborg minnkaði muninn í 3-2 en lengra komst liðið ekki. SönderjyskE er í 9. sæti með 29 stig og farið að fjarlægjast fallbaráttu á meðan Álaborg er í 10. sæti með 23 stig.

Frederik Schram stóð í marki Roskilde sem tapaði fyrir Hilleröd, 5-2, í fallriðli dönsku B-deildarinnar. Roskilde er á botninum með 16 stig.

Kolbeinn Þórðarson var á skotskónum í 3-2 tapi Gautaborgar gegn Häcken í sænsku úrvalsdeildinni.

Hann jafnaði metin í 1-1 á 38. mínútu og komst Gautaborg yfir nokkrum mínútum síðar.

Häcken náði inn jöfnunarmarki áður en hálfleikurinn var úti og kom síðan sigurmark gestanna í uppbótartíma síðari hálfleiks og þar við sat.

Gautaborg er með 6 stig í 10. sæti.

Hlynur Freyr Karlsson lék í vörn Brommapojkarna sem unnu Värnamo, 3-2, á heimavelli. Brommapojkarna voru að ná í annan sigur tímabilsins.

Guðmundur Þórarinsson lék síðari hálfleik í 1-0 sigri Noah á FC Gandzasar í armensku úrvalsdeildinni.

Selfyssingurinn var ekki með í síðustu fjórum leikjum liðsins vegna meiðsla en sneri aftur í dag í mikilvægum sigri. Noah er með þrettán stiga forystu á toppnum þegar sex leikir eru eftir.

Hákon Arnar Haraldsson og hans menn í Lille unnu 3-1 sigur á Auxerre í frönsku deildinni.

Skagamaðurinn átti flottan leik sem sóknartengiliður og fær 7,9 í einkunn á FotMob.

Jonathan David skoraði tvö fyrir Lille sem er í 4. sæti með 53 stig, einu frá þriðja sæti, þegar fjórir leikir eru eftir. Fjórða sætið gefur þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á meðan efstu þrjú liðin fara beint í deildarkeppnina.
Athugasemdir