Jón Dagur Þorsteinsson greip tækifærið með þýska B-deildarfélaginu Herthu Berlín í dýrmætum 3-2 sigri á Ulm í dag.
Íslenski landsliðsmaðurinn hefur fengið fá tækifæri til að sanna ágæti sitt frá því hann kom frá Leuven á síðasta ári.
Hann kom inn af bekknum gegn Ulm í dag, sem var hans fjórtándi deildarleikur á tímabilinu, og var hann ekki lengi að láta að sér kveða.
Jón Dagur þurfti aðeins nokkrar sekúndur áður en hann stal boltanum af miðjumanni Ulm, kom síðan með hárnákvæma stungusendingu inn á Fabian Reese sem skoraði.
Sjáðu stoðsendinguna hér
Fyrsta stoðsending Jóns Dags í deildinni sem fagnaði vel og innilega með Reese.
Reese skoraði annað mark fyrir Herthu áður en Ulm jafnaði. Á lokamínútunum skoraði Florian Niederlechner sigurmarkið með skalla eftir aukaspyrnu og Hertha svo gott sem búið að bjarga sér frá falli en liðið er með 39 stig í 11. sæti. þegar fjórir leikir eru eftir.
Hólmbert Aron Friðjónsson og félagar í Preussen Münster eru í slæmri stöðu eftir 3-1 tap gegn toppliði Köln.
Framherjinn kom inn af bekknum í síðari hálfleik, en náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Münster er í 16. sæti deildarinnar með 28 stig og er fimm stigum frá öruggu sæti.
Eins og staðan er núna þarf liðið að einbeita sér að því að falla ekki beint niður í C-deildina. Það situr núna í umspilssæti, en það myndi þá mæta liðinu sem hafnar í 3. sæti C-deildarinnar í úrslitaeinvígi um sæti í B-deildinni.
Athugasemdir