Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mán 20. maí 2024 17:21
Brynjar Ingi Erluson
Sveindís þurfti að fara af velli eftir ljóta tæklingu frá markverði Essen
Sveindís Jane meiddist í leik Wolfsburg í dag
Sveindís Jane meiddist í leik Wolfsburg í dag
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir fór meidd af velli á 23. mínútu í 6-0 stórsigri Wolfsburg á Essen í lokaumferð þýsku deildarinnar í dag.

Sveindís var í byrjunarliði Wolfsburg og var nálægt því að skora eftir átján mínútna leik en skalli hennar hafnaði í þverslá.

Um tveimur mínútum síðar var Sveindís sloppin ein í gegn eftir varnarmistök hjá Essen. Sophia Winkler, markvörður Essen, hljóp út úr markinu og sparkaði kröftuglega í sköflunginn á Sveindísi sem féll í grasið.

Winkler fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið en Sveindís gat ekki haldið leik áfram.

Skelfilegar fréttir fyrir landsliðið sem á tvo mikilvæga leiki gegn Austurríki síðar í þessum mánuði og í byrjun næsta.

Sveindís hefur verið óheppin með meiðsli síðasta árið. Hún meiddist í byrjun tímabils og snéri ekki aftur fyrr en um áramótin, en varð síðan aftur fyrir meiðslum í landsliðsverkefni í apríl.

Síðustu vikur hefur hún komið sér á gott skrið en þetta var enn eitt bakslagið fyrir hana.

Ekki er ljóst hvort meiðslin sem hún varð fyrir í dag eru af alvarlegum toga en það ætti að koma betur í ljós á næstu dögum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner