Þorleifur Úlfarsson, leikmaður Debreceni í Ungverjalandi, hefur ekkert spilað með liðinu síðan í febrúar vegna hnémeiðsla en hann vonast til þess að snúa aftur á völlinn á næstunni.
Blikinn kom til Debreceni frá bandaríska félaginu Houston Dynamo í byrjun ársins.
Þorleifur, sem er 23 ára gamall, náði að spila þrjá leiki með ungverska liðinu áður en hann meiddist á hné.
Í mars fór hann til Þýskalands í aðgerð á hné og hefur síðan þá verið í erfiðu endurhæfingarferli.
Á dögunum fór hann í viðtal við heimasíðu Debreceni þar sem hann talaði um endurhæfinguna
„Ég er ekki alveg viss hversu nálægt ég er því að snúa aftur, en mér líður eins og það sé stutt í þetta. Vonandi verð ég mættur aftur á völlinn fljótlega. Ferlið hefur ekki verið auðvelt og augljóslega vil ég vera á vellinum og spila fyrir framan stuðningsmennina.“
„Þetta hefur verið erfitt andlega. Ég náði nokkrum leikjum áður en ég meiddist en ferlið hefur verið erfitt.“
„Markmið tímabilsins er að haldast heill og vonandi geta spilað alla leiki og hjálpa liðinu að ná árangri. Enginn er vonsviknari en ég. Ég veit að það eru margir sem vilja sjá mig spila og hef ég verið mjög óheppinn að geta það ekki, en vonandi hafa stuðningsmenn enn trú á mér því ég vil endurgjalda þeim það traust,“ sagði Þorleifur í lokin.
Athugasemdir