Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 20. september 2022 17:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Nýr þjálfari FCK fékk fleiri tækifæri en hann átti skilið hjá FH
Þjálfarinn Jacob Neestrup
Þjálfarinn Jacob Neestrup
Mynd: Getty Images
Neestrup í bikarleik gegn Keflavík árið 2010.
Neestrup í bikarleik gegn Keflavík árið 2010.
Mynd: Davíð Óskars
FH liðið 2010
FH liðið 2010
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Atli Viðar Björnsson
Atli Viðar Björnsson
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Jess Thorup var í dag rekinn sem þjálfari dönsku meistaranna í FC Kaupmannahöfn. Í kjölfarið var greint frá því að Jacob Neestrup, sem var aðstoðarþjálfari liðsins, tæki við og skrifaði hann undir fjögurra ára samning.

Neestrup er 34 ára og stýrði liði Viborg áður en hann var ráðinn aðstoðarþjálfari FCK í fyrra. Neestrup lék fyrir tólf árum á Íslandi, lék sex deildarleiki og einn bikarleik með ríkjandi meisturum FH.

Áður en miðjumaðurinn kom til FH hafði hann verið hjá FCK og Stavanger í Noregi. Hann lék tvo leiki fyrir U20 landslið Danmerkur og árið 2011 lagði hann skóna á hilluna.

Fótbolti.net ræddi við tvo aðila sem voru í FH á þeim tíma. Atli Viðar Björnsson var samherji Neestrup hjá FH og man ágætlega eftir þeim danska.

„Ég man vel eftir honum, Jacob Neestrup var súpertalent í fótbolta og þegar hann kom í FH var mikil spenna fyrir því að fá hann. Menn höfðu væntanlega eitthvað gúgglað hann og vissu eitthvað um að hann átti glæsta sögu sem ungur leikmaður, búinn að vera í U21 landsliðinu og spila með FCK. En hann var búinn að vera í einhverju brasi, einhver langtímameiðsli og vesen að komast á lappir. Það hélt áfram þegar hann kom til FH og hann var aldrei merkilegur leikmaður fyrir FH en fáránlega góður gaur," sagði Atli Viðar.

„Hann var aldrei nema væntanlega skugginn af því sem hann hafði verið áður, því þegar hann spilaði þá var hann hreinlega slakur og ef eitthvað var þá fékk hann fleiri tækifæri hjá FH en hann átti skilið miðað við frammistöður sínar. Hann vildi gera ótrúlega margt til að komast á stað aftur sem fótboltamaður en það bara gekk ekki."

„Hann var svolítið meiddur og náði aldrei neinum takti sem fótboltamaður, náði engri almennilegri samfellu af æfingum eða leikjum. Ég held að það hafi fljótt orðið ljóst að hann myndi ekki ná fyrri styrk hjá FH. Maður fann ofboðslega vel hvað honum fannst það leiðinlegt, honum fannst hann vera valda bæði sér vonbrigðum og valda FH vonbrigðum því það voru miklar væntingar til hans. Hann var svolítið lítill í sér yfir því að ná ekki fyrri hæðum."

„Hann var frekar rólegur og yfirvegaður gaur ef ég man rétt, flottur og ekki til vesen á honum."

„Ég átti ekki von á því að þetta væri eitthvað súpertalent í þjálfun sem væri að verða til. Maður hefur fylgst með honum, fylgst með framgöngu hans sem þjálfara undanfarin ár og séð að þetta er greinilega mikil vonarstjarna í Danmörku þegar kemur að þjálfun,"
sagði Atli.

Flottur strákur sem átti í basli með að komast í liðið
Jörundur Áki Sveinsson var aðstoðarþjálfari FH þegar Neestrup var leikmaður liðsins.

„Flottur strákur sem var í smá basli með að komast í liðið hjá okkur man ég. Hann lendir í bílslysi og missti aðeins út út af því. Hann var viðkunnanlegur strákur sem náði sér ekki alveg á strik hjá okkur. Ég hef svona aðeins fylgst með honum, hann var að þjálfa hjá Viborg og gaman að sjá hversu langt hann hefur náð, hann er að taka við risastarfi 34 ára gamall," sagði Jöri.

„Það voru miklar væntingar gerðar til hans en hann náði sér ekki nægilega vel á strik. Hann kom ekki alveg heill til okkar og var í smá basli að vinna sig inn í liðið. Þegar hann fékk svo tækifæri þá kannski nýtti hann þau ekki heldur. Maður sá alveg að það var eitthvað í þessum gæja og hann var fínn í fótbolta."

Jöra rámaði í að það hefði komið til tals að Neestrup myndi fara heim í sumarglugganum.

„Hann kaus að vera áfram, vildi ekki fara heim og leið vel í FH. Hann var ánægður með æfingarnar og taldi betra fyrir sig að vera hjá okkur og fara eftir tímabilið til Danmerkur."

„Ég hitti hann örstutt á UEFA Pro námskeiði fyrir um tveimur árum síðan í gegnum fjarbúnað, þá vorum við saman í einhverju verkefni og náði aðeins að spjalla við hann. Það var gaman að kasta á hann kveðju og óska honum til hamingju með hvernig hans ferill hefur þróast í þessa þjálfaraátt. Ég hef ekkert nema gott um þennan dreng að segja,"
sagði Jöri.

Við fréttaleit sést að fjallað hafði verið tvisvar um Neestrup í ár (fyrir tíðindi dagsins) og er það eftir tíu ár án þess að nafn hans var skrifað í frétt á síðuna. Neestrup þjálfaði Mána Austmann í unglingaliðum FCK og valdi Máni Neestrup sem besta þjálfarann sem hann hefur haft. Þá var það Neestrup sem lét Hákon Arnar Haraldsson vita að hann væri í íslenska landsliðshópnum í júní.

Þrír Íslendingar eru í aðalliðshópi FCK. Það eru þeir Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner