Félög í ensku úrvalsdeildinni hafa í dag verið að skila staðfestum 25 manna úrvalsdeildarhópum sínum.
Hvert félag má velja 25 leikmenn sem eru eldri 21 árs, og þar af þurfa átta þeirra að vera uppaldir hjá félagi í Englandi.
Chelsea er búið að skila sínum hóp og það sem er athyglisverðast er að Petr Cech er í hópnum. Cech lagði hanskana á hilluna í fyrra en í kjölfarið var hann ráðinn sem tæknilegur ráðgjafi hjá Chelsea.
„Petr Cech er tekinn inn í hópinn sem neyðarmarkvörður. Þetta er varúðarskref vegna fordæmalausra aðstæðna sem nú stafa vegna Covid-19," segir í tilkynningu Chelsea.
Það eru þrír aðrir markverðir í leikmannahópi Chelsea, Edouard Mendy, Kepa Arrizabalaga og Willy Caballero.
Cech er 38 ára gamall.
Athugasemdir