Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. febrúar 2023 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Gary Neville vill að Weghorst verði keyptur
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Gary Neville er hrifinn af hollenska sóknarmanninum Wout Weghorst sem Manchester United fékk að láni í janúar.


Rauðu djöflana vantaði augljóslega stóran mann í fremstu víglínu og þó að Weghorst virðist ekki búa yfir neinum sérstökum gæðum þá hefur honum tekist að verða mikilvægur partur af sóknarleik liðsins.

„Ég elska Wout Weghorst! Við ættum ekki að hlæja þegar hann klúðrar góðu færi, heldur ættum við að bera virðingu fyrir Erik ten Hag sem velur hann í byrjunarliðið hvern einasta leik," sagði Neville í hlaðvarpsþættinum sínum. „Á síðustu leiktíð var helsta vandamál Man Utd að liðið gat ekkert pressað með Ronaldo í fremstu víglínu en það hefur breyst við komu Weghorst.

„Hann er mjög góður að pressa og verjast föstum leikatriðum, hann er góður í sóknaruppbyggingu og það er afar dýrmætt fyrir lið sem býr yfir miklum gæðum í sóknarleiknum. Það eru aðrir menn sem geta séð um markaskorunina þó hann skori ekki sjálfur. Ef hann væri líka að skora eitt og eitt mark þá væri hann nánast fullkominn fyrir þetta hlutverk. Hann vantar ekki færin til að skora.

„Stuðningsmenn horfa á hann klúðra þessum færum og bera hann saman við Cristiano Ronaldo. Það er ósanngjarnt því þetta eru allt öðruvísi leikmenn. Weghorst hefur staðið sig frábærlega frá komunni til Manchester."

Neville telur að Weghorst sé ekki með gæðin sem þarf til að leiða sóknarlínu Man Utd næstu árin en væri samt sem áður ánægður með að sjá félagið festa kaup á honum.

„Ég held að hópurinn elski hann, maður sér það á líkamstjáningunni innan vallar. Til dæmis þegar Bruno Fernandes, sem elskar að skora sjálfur, reyndi að gefa honum stoðsendingu undir lokin. Ef ég er heiðarlegur þá hefur Weghorst ekki gæðin til að vera tían hjá Man Utd en ég held ekki að liðið gæti verið að ná jafn góðum úrslitum án hans. Ég vona að Ten Hag kaupi hann og noti sem varamann í framtíðinni, þetta er sóknarmaður sem getur gefið liðinu eitthvað aukalega í ákveðnum leikjum. 

„Mér líkar við hann sem leikmann og hann hentar mjög vel fyrir þetta Manchester lið. Hann mun þó ekki endast lengi í byrjunarliðinu þar sem Man Utd þarf augljóslega að kaupa gæðameiri sóknarmann ef liðið ætlar að berjast um titla og spila í Meistaradeildinni. Það þýðir samt ekki að Weghorst geti ekki verið partur af leikmannahópnum."


Athugasemdir
banner
banner
banner