Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   þri 21. febrúar 2023 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Glasner lá yfir Napoli í vetrarfríinu: Eigum góða möguleika
Mynd: EPA
Victor Osimhen og Khvicha Kvaratskhelia virðast vera heimsklassa leikmenn.
Victor Osimhen og Khvicha Kvaratskhelia virðast vera heimsklassa leikmenn.
Mynd: EPA

Olivier Glasner, þjálfari Eintracht Frankfurt, telur sig vera með útskýringu á því hvers vegna Napoli sé að rúlla yfir ítölsku deildina.


Napoli er með 62 stig eftir 23 umferðir af tímabilinu og 15 stiga forystu á Inter sem situr í öðru sæti. Frankfurt tekur á móti Napoli í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld eftir að hafa komist bakdyramegin inn í keppnina, þrátt fyrir að enda í ellefta sæti þýsku deildarinnar í fyrra.

„Við erum mjög ánægðir með að vera komnir upp úr riðlinum og núna mætum við sterkum andstæðingum en teljum okkur eiga góða möguleika á að komast áfram," sagði Glasner á fréttamannafundi í gær. „Við erum búnir að verja fleiri og fleiri klukkustundum í að skoða og leikgreina Napoli, við byrjuðum á því strax í vetrarfríinu.

„Kvaratskhelia og Osimhen eru virkilega góðir leikmenn en ekki þeir einu sem við þurfum að hafa gætur á. Svo eru þeir með virkilega öfluga varnarlínu. En við erum líka með sterkt lið og að gera góða hluti þannig við teljum okkur eiga góða möguleika. Leikvangurinn verður stútfullur og stemningin frábær.

„Ástæðan fyrir því að Napoli trónir á toppi deildarinnar er sú að þeir spila á anti-ítalskan hátt. Þeir beita öflugri hápressu og aggressívum varnarleik þar sem miðvernir Kim og Rrahmani eru mjög grimmir. Við erum vel undirbúnir og tilbúnir í þennan slag. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessari viðureign."

Frankfurt er í sjötta sæti þýsku deildarinnar og er búið að vinna síðustu fimm heimaleiki sína í öllum keppnum.

Liðið vann Evrópudeildina í fyrra og fékk þess vegna þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðasta haust, þar sem liðið hafði betur gegn Sporting CP og Marseille til að komast í útsláttarkeppnina.


Athugasemdir
banner