Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 21. febrúar 2023 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
ÍA í gríðarstórri stefnumótun - „Grafalvarlegt mál sem þarf að greina niður í kjölin"
Halda vonandi áfram að framleiða frábæra fótboltamenn
Lengjudeildin
Þeir verða að nýta tækifærið sitt.
Þeir verða að nýta tækifærið sitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ef hann kemst í gegnum það þá er hann klár í slaginn.
Ef hann kemst í gegnum það þá er hann klár í slaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Alveg sannfærður um að við erum á góðri leið með að bæta þá hluti milli tímabila
Alveg sannfærður um að við erum á góðri leið með að bæta þá hluti milli tímabila
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Við ætlum okkur upp, félag eins og ÍA gerir það alltaf.
Við ætlum okkur upp, félag eins og ÍA gerir það alltaf.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar félagið fær svona högg og skell þá þarf að þétta raðirnar og koma öflugir til baka.
Þegar félagið fær svona högg og skell þá þarf að þétta raðirnar og koma öflugir til baka.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, ræddi við ÍA TV eftir leik liðsins gegn Val á laugardag. Lokatölur urðu 0-2 fyrir Val og má hlusta á viðtalið í heild sinni hér.

Hann var m.a. spurður út í bakverði liðsins, þá Hákon Inga Einarsson og Arnleif Hjörleifsson, sem komu frá Kórdrengjum í vetur og varnarmanninn Alex Davey sem glímt hefur við meiðsli.

Alltof mörg ár af lélegum varnarleik
„Hákon og Arnleifur eru að koma úr Kórdrengjum þar sem þeir hafa verið að spila fimm manna vörn. Við höfum verið að leggja svolítið mikla vinnu í að snúa því til baka. Nú eru þeir komnir í fjögurra manna vörn og geta ekki alveg treyst á þessa hafsenta í kringum sig. Maður hefur séð það svolítið að undanförnu, en ég hef engar áhyggjur af því. Við höfum nógan tíma, mér fannst þetta framför í dag, en það er verk að vinna. Við þurfum að laga varnarleikinn hérna á Akranesi. Þetta eru orðin alltof mörg ár þar sem við höfum verið að spila lélegan varnarleik og við þurfum að leggja áherslu á það núna," sagði Jón Þór við ÍA TV.

ÍA fékk á sig 53 mörk í 22 leikjum í fyrra (63 í 27 leikjum - næstmest í deildinni), 44 mörk 2021 (næstmest í deildinni), 43 mörk 2020 (mest í deildinni) en einungis 32 mörk tímabilið 2019, þá sem nýliði í deildinni.

Kom ágætlega út úr myndatöku
Fram kom í viðtalinu að Davey hefði snúið aftur í ÍA í vetur meiddur og hefði farið í myndatöku í síðustu viku. Fótbolti.net ræddi við Jón Þór í dag og spurði hann út í Davey, komandi tímabil og það síðasta.

„Myndatakan kom ágætlega út, hann var meiddur á hné lungað af tímabilinu í fyrra. Við vorum að mynda þá áverka, þeir hafa gróið býsna vel og engar skemmdir á krossböndum. Ég reikna með því að hann geti byrjað að æfa með okkur eftir þessa viku. Eftir stendur að skoða lítils háttar áverka á liðþófa. Ef hann kemst í gegnum það þá er hann klár í slaginn."

Verða að bera virðingu fyrir verkefninu
Hvernig horfir komandi tímabil við ykkur á Akranesi?

„Við ætlum okkur upp, félag eins og ÍA gerir það alltaf. Þegar félagið fær svona högg og skell þá þarf að þétta raðirnar og koma öflugir til baka."

„Það er uppstokkun í gangi, það er mikil endurnýjun á leikmannahópnum og það tekur alltaf tíma. Við erum að byggja upp nýtt lið, erum að fá marga unga leikmenn inn í liðið sem stigu sín fyrstu skref síðasta sumar. Við ætlum þeim stærra hlutverk í liðinu núna. Kröfurnar eru að fara beint upp en það eru alltaf óvissuþættir sem fylgja því þegar ungir strákar fá stærra hlutverk. Við treystum þeim í það, en það þarf þolinmæði og það þarf tíma. Þeir verða að bera virðingu fyrir verkefninu og því mikla trausti sem þeim er sýnt, verða að nýta tækifærið sitt."


Þarf að greina hvar farið var út af sporinu
Ertu búinn að fara yfir síðasta tímabil og leggja fingur á það af hverju ÍA féll?

„Ég held að við verðum að kafa dýpra og lengra í það. Tímabilið þar á undan bjargar liðið sér á síðustu mínútunum. Þetta á sér langan aðdraganda og ef við skoðum sögu félagsins á þessari öld þá gerist það með mjög reglulegum hætti. Við þurfum að skoða þetta í víðara samhengi og greina hvar við förum út af sporinu."

„Við erum að endurnýja leikmannahópinn gríðarlega mikið milli tímabila og teljum okkur vita hvernig við viljum gera það og hvaða hlutir það eru sem við viljum bæta inn í okkar leikmannahópi frá því í fyrra. Ég er alveg sannfærður um að við erum á góðri leið með að bæta þá hluti milli tímabila. Síðan verðum við að skoða það í víðara samhengi hvernig við byggjum það til framtíðar."


ÍA féll sumarið 2008, fór upp 2011 en féll aftur 2013, fór strax aftur upp en féll 2017. ÍA fór strax aftur upp en féll síðasta haust niður í Lengjudeildina.

Allir þættir félagsins skoðaðir
Er markvisst verið að skoða hvað gerist í aðdraganda fallsins?

„Já, það er verið að því. Félagið er farið í gríðarstóra stefnumótun í samstarfi við KPMG meðal annars. Þar eru allir þættir félagsins skoðaðir, félagið er búið að leggja út í gríðarlega mikla vinnu hvað það varðar. Sú vinna var byrjuð fyrir síðasta tímabil. Það voru klárlega merki þess að það voru hlutir sem menn vildu bæta hjá félaginu. Úr karla- og kvennastarfinu og niður í alla yngri flokkana."

„Síðustu ár hjá karlaliðinu, og þegar við rýnum í söguna, þá sérðu að þessi lið, sem hafa fallið úr deildinni á þessari öld, eiga mjög margt sameiginlegt. Það er ákveðið ferli sem fer í gang hjá félaginu sem endar með því að liðið fellur. Það því miður gerist reglulega og með mjög svipuðum hætti í nánast öll skiptin. Það er grafalvarlegt mál sem þarf að vinna markvisst og greina niður í kjölinn."


Þarf að hlúa betur að framtíðarleikmönnum ÍA
Er eitthvað sérstakt atriði sem hefur komið upp hjá ykkur við þessa skoðun?

„Í sjálfu sér höfum við öll okkar skoðanir á því og við sem störfum hjá félaginu í dag erum að vinna í þeim þáttum."

„ÍA hefur skilað af sér gríðarlega öflugum leikmönnum í gegnum tíðina, miklum fjölda af atvinnumönnum og landsliðsmönnum. Við þurfum að fara dýpra en það, gera aðeins betur við okkar framtíðarleikmenn. Við vonandi höldum áfram að framleiða leikmenn eins og Ísak Bergmann, Hákon Haralds og Arnór Sig. En á sama tíma þá þurfum við að hlúa betur að hópnum sem kemur þar á eftir og eru framtíðarleikmenn ÍA."

„Þar tel ég að við eigum að geta notað samstarfið við Kára mun betur og koma þeim leikmönnum í meistaraflokksfótbolta fyrr svo þeir fái fyrr reynslu af þeim bolta. Kári því miður féll í 3. deild fyrir tveimur árum síðan - 2. deild er auðvitað frábær deild til að þróa og þroska unga leikmenn. Við viljum komast þangað aftur og búa til afburðaumhverfi fyrir unga leikmenn til að vaxa og dafna. Ég held að þetta sé stór partur af þessu, að hlúa betur að okkar framtíðarleikmönnum."


Þrjú lið sem eru vel tengd saman
Kári og 2. flokkur ÍA eru í samstarfi. „Við lögðum mikla vinnu í það á sínum tíma, á árunum 2014-2017, með það að leiðarljósi að leiðin upp í meistaraflokk karla væri markviss. Það gekk gríðarlega vel og eftir var tekið. Svo dvínaði það samstarf aðeins sem endaði með því að Kári féll niður um deild."

„Við erum markvisst að byrja þá vinnu aftur og tengja þessi þrjú lið saman; 2. flokk, meistaraflokk og Kára. Þjálfarateymin hjá þessum liðum vinna mjög náið saman og það er mikið samstarf milli þessara þriggja liða sem er ungum leikmönnum ÍA til heilla. Það er yfirlýst markmið að efla þessa leið upp í meistaraflokk karla,"
sagði Jón Þór að lokum.
Athugasemdir
banner
banner