
Filippseyjar 0 - 5 Ísland
0-1 Amanda Jacobsen Andradóttir ('20)
0-2 Amanda Jacobsen Andradóttir ('51)
0-3 Selma Sól Magnúsdóttir ('71)
0-4 Hlín Eiríksdóttir ('80)
0-5 Alexandra Jóhannsdóttir ('93)
Lestu um leikinn: Filippseyjar 0 - 5 Ísland
Íslenska kvennalandsliðið hefur lokið leik á Pinatar Cup æfingamótinu sem fór fram á Spáni. Ísland klárar mótið á stórsigri gegn Filippseyjum sem tryggir Stelpunum okkar toppsæti mótsins.
Ísland var talsvert sterkari aðilinn í leiknum og skoraði Amanda Jacobsen Andradóttir eina mark fyrri hálfleiksins með glæsilegu skoti utan vítateigs. Stelpurnar hefðu getað bætt við marki fyrir leikhlé en næsta mark lét ekki sjá sig fyrr en í síðari hálfleik.
Þar var Amanda, sem er fædd 2003, aftur á ferðinni og gerið frábært mark eftir snögga aukaspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur.
Selma Sól Magnúsdóttir gerði þriðja mark Íslands eftir gott samspil við Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, Hlín Eiríksdóttir setti fjórða markið eftir undirbúning frá Karólínu og að lokum skoraði Alexandra Jóhannsdóttir í uppbótartíma eftir fyrirgjöf frá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.
Sannfærandi sigur Íslands sem hefði getað verið stærri. Stelpurnar ljúka keppni með sjö stig úr þremur leikjum eftir sigur gegn Skotlandi og jafntefli við Wales.