banner
   þri 21. febrúar 2023 23:33
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Þurfum að læra af þessu tapi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA

Jurgen Klopp svaraði spurningum eftir 2-5 tap Liverpool á heimavelli gegn Real Madrid í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.


Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í tveggja marka forystu snemma en Real Madrid komst til baka og var staðan 2-2 í hálfleik.

„Byrjunin var fullkomin. Þetta var Liverpool í hnotskurn, við gerðum nákvæmlega það sem við vildum gera. Fyrri hálfleikurinn var góður fyrir utan mörkin sem við fengum á okkur. Í fyrra markinu vantaði betri pressu á varnarlínuna þeirra og seinna markið á bara ekki að gerast, en getur gerst," sagði Klopp að leikslokum og sneri sér svo að síðari hálfleiknum sem var afleitur.

„Í upphafi síðari hálfleiks komast þeir í gegnum okkur með löngum bolta til Vinicius en ég er ekki viss um að þetta hafi átt að vera brot. Við vörðumst aukaspyrnunni ekki vel og þá vorum við lentir 3-2 undir gegn einu af bestu skyndisóknarliðum heims.

„Eftir þetta vorum við búnir að missa meðbyrinn. Við reyndum að skora en þeir refsuðu okkur með skyndisóknum. Eitt skotið sem fór af varnarmanni og í netið var skrýtið, en svona gerist í fótbolta. Varnarleikurinn okkar var ekki nægilega góður og í seinni hálfleik misstum við boltann alltof oft á skrýtnum stundum."

Liverpool heimsækir Real Madrid á Santiago Bernabeu eftir þrjár vikur en sú áskorun gæti reynst alltof erfið fyrir lærisveina Klopp.

„Við þurfum fyrst að spila í úrvalsdeildinni og tryggja það að við lærum eitthvað af þessu tapi. Svo munum við fara á Bernabeu og spila fótboltaleik - það verður gríðarlega þung þraut."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner