Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. febrúar 2023 09:20
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Þurfum að spila fullkomna leiki til að komast áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Jürgen Klopp svaraði spurningum á fréttamannafundi í gær fyrir stórleik Liverpool gegn Real Madrid sem fer fram í kvöld.


Þar verður úrslitaleikurinn frá því í fyrra endurtekinn en Klopp vonast eftir betri úrslitum eftir að hans menn töpuðu 1-0 í fyrra.

Hvorki Liverpool né Real hafa verið sannfærandi það sem af er tímabils en Klopp er sáttur með tímasetninguna á leiknum þar sem lærisveinar hans eru nýbúnir að vinna tvo úrvalsdeildarleiki í röð.

„Lífið snýst aðallega um tímasetningar og ég er mjög sáttur með að þessi leikur fari fram núna. Það hefði verið hrikalegt að spila þennan leik fyrir fjórum vikum," sagði Klopp. „Vonandi náðum við okkur aftur á strik tímanlega fyrir þessa viðureign því við verðum að vera uppá okkar besta til að eiga möguleika. Við þurfum að spila tvo fullkomna leiki ef við ætlum áfram í næstu umferð."

Það eru níu mánuðir síðan Liverpool tapaði úrslitaleiknum gegn Real þrátt fyrir mikla yfirburði á vellinum.

„Þetta eru tvö öðruvísi lið að mætast á öðrum tímum. Þetta verður spennandi viðureign og við verðum að bíða og sjá hverjir komast áfram. Þetta er ein stærsta viðureign fótboltaheimsins og ég býst við frábærum leik.

„Við verðum að spila uppá okkar besta til að eiga möguleika á meðan Real Madrid þarf ekki að gera það. Þeir geta unnið okkur án þess að vera uppá sitt besta."


Athugasemdir
banner
banner
banner